Ungir frumkvöðlar leita lausna

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að kórónufaraldurinn hefur sett mark sitt á skólastarf í landinu. Fyrirtækjasmiðja ungra frumkvöðla er þar engin undantekning, en fyrirtækjasmiðjan er valgrein og hafa sjö nemendur skólans unnið að því frá því í byrjun janúar að stofna fyrirtæki og framleiða vöru sem sýna átti og selja á Vörumessu í Smáralind nú um helgina.

Þegar ljóst var að ekki yrði af Vörumessunni  eins og til stóð brugðu aðstandendur keppninnar á það ráð að láta nemendur gera stutt kynningarmyndband um vöruna sem þau hafa verið að þróa og framleiða. Skiladagur var 17/4 og verður að segjast að framlag frumkvöðlahópsins frá Kvennaskólanum sé afar glæsilegt þrátt fyrir að ekki hafi verið hægt að kalla saman hópinn á einn stað vegna samgöngubannsins.  Fyrirtækið þeirra heitir Skín og hafa þau framleitt umhverfisvænt sjampó með það að leiðarljósi að uppfylla nokkur af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Varan verður seld í gegnum Instagram-síðu og á Facebook-síðu fyrirtækisins.

Nemendur munu eins og áður skila inn skýrslu um verkefnið og mun dómnefnd keppninnar Ungir frumkvöðlar meta framlagið útfrá skýrslunni og myndbandinu sem má sjá hér.