Um skólann

Kvennaskólinn í Reykjavík er einn allra elsti skóli landsins, stofnaður 1874 af hjónunum Þóru og Páli Melsteð. Upphaflega var skólahaldið á heimili þeirra við Austurvöll en árið 1878 létu þau rífa húsið og byggðu nýtt og stærra hús á sama stað á eigin kostnað. Árið 1909 flutti skólinn í eigið húsnæði að Fríkirkjuvegi 9 þar sem hluti starfseminnar fer enn fram. Árið 1979 var tekin í notkun viðbygging við gamla húsið og nú er sá hluti nýttur sem kennslustofur og bókasafn. Frá 1993 hefur hluti kennslunnar farið fram í Þingholtsstræti 37, í húsi sem kallað er Uppsalir en hýsti áður Verslunarskóla Íslands. Þar eru nú fjórar kennslustofur og mötuneyti nemenda. Haustið 2011 fékk skólinn svo Miðbæjarskólann, Fríkirkjuvegi 1 til afnota. 

Fyrstu öldina sem skólinn starfaði var hann eingöngu fyrir stúlkur en haustið 1977 hóf fyrsti pilturinn nám við skólann. Síðan þá hefur piltum í skólanum fjölgað ár frá ári og eru þeir nú um 30% nemenda. Skólinn varð framhaldsskóli 1979 og fyrstu stúdentarnir útskrifuðust 1982.

Kvennaskólinn í Reykjavík er bekkjaskóli og býður nám til stúdentsprófs á tveimur bóknámsbrautum; félagsvísindabraut og náttúruvísindabraut. Haustið 2023 tók til starfa starfsbraut í skólanum, sem ætluð er nemendum sem þurfa sérhæft einstaklingsmiðað nám er mætir færni þeirra. Skólinn starfar skv. lögum um framhaldsskóla frá 2008. Nemendur eru um 640 á hverju ári og starfsfólk rúmlega 70.

Skólastjórnendur frá upphafi eru:
Frú Þóra Melsteð forstöðukona 1874 – 1906
Frk. Ingibjörg H. Bjarnason forstöðukona 1906 – 1941
Frk. Ragnheiður Jónsdóttir forstöðukona 1941 – 1959
Dr. Guðrún P. Helgadóttir skólastjóri 1959 – 1982
Frú Hrefna Þorsteinsdóttir skólastjóri 1965 – 1967 afleysing í leyfi skólastjóra
Aðalsteinn Eiríksson skólameistari 1982 – 1998
Ingibjörg S. Guðmundsdóttir skólameistari 1998 – 2015

Oddný Hafberg skólameistari 2006 – 2007, afleysing í ársleyfi skólameistara.
Hjalti Jón Sveinsson skólameistari 2016 - 2022
Kolfinna Jóhannesdóttir 2022 - 

Skólinn leggur áherslu á að veita nemendum sem besta menntun í námsumhverfi þar sem þeim líður vel og læra að bera ábyrgð á námi sínu. Eitt helsta markmið skólans er að veita nemendum haldgóða og vandaða menntun og búa þá sem best undir frekara nám.

Skólabragur Kvennaskólans einkennist af heimilislegu andrúmslofti, jákvæðni, góðri umgengni og góðum samskiptum nemenda og starfsfólks og gagnkvæmri virðingu þeirra á milli. Lögð er áhersla á fjölbreytta kennsluhætti, vinnusemi nemenda og að góður vinnufriður ríki í kennslustundum. Sérstök áhersla er lögð á metnað og ábyrgð í námi, persónuleg og hlýleg samskipti, gildi tjáningar og þá samskiptahæfni sem nauðsynleg er í samskiptum ólíkra einstaklinga í ólíkum aðstæðum.

Aðstoð við nemendur með námsörðugleika eða önnur sértæk vandamál er veitt eftir því sem kostur er. Reynt er að grípa í taumana og sporna gegn brottfalli áður en í óefni er komið hjá einstaka nemendum án þess þó að slá af námskröfum skólans.

Skólinn mun hér eftir sem hingað til leggja áherslu á samfélagslega meðvitund nemenda með það að markmiði að útskrifa nemendur sem gera samfélagið betra. Gagnrýnin skapandi hugsun er í hávegum höfð, svo og sjálfstæð og öguð vinnubrögð. Þjálfun samvinnu er einnig ríkur þáttur í skólastarfinu. Samband árangurs og erfiðis í náminu er undirstrikað og nemendum gert ljóst að stöðug og góð vinna yfir veturinn reynist jafnan farsælust.

Lögð er áhersla á sex grunnþætti í öllu skólastarfinu; læsi í víðum skilningi, sjálfbærni, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti, heilbrigði og velferð og sköpun. Markmiðið er að búa nemendur undir að verða gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í jafnréttis- og lýðræðissamfélagi, að nemendur taki ábyrga afstöðu til umhverfismála og geri sér grein fyrir ábyrgð og áhrifum mannsins á vistkerfi jarðar.