- Kynning fyrir 10. bekkinga
- Skólinn
- Námið
- Þjónusta
- Áfangar
- English
Kvennaskólinn í Reykjavík er einn allra elsti skóli landsins, stofnaður árið 1874 af hjónunum Þóru og Páli Melsteð í þeim tilgangi að bjóða stúlkum upp á bóklegt og verklegt nám. Fyrstu fjögur árin var skólahald á heimili þeirra hjóna við Austurvöll og voru nemendur 11 þegar mest lét. Fljótlega var ljóst að stærra skólahúsnæði væri forsenda þess að skólinn gæti eflst og þróast. Það varð úr að hjónin létu rífa húsið vorið 1878 og byggðu nýtt og stærra hús á sama stað á eigin kostnað. Þessi breyting gerði mögulegt að taka inn 34 stúlkur í skólann. Árið 1909 urðu umskipti í sögu skólans en þá flutti skólinn í eigið húsnæði að Fríkirkjuvegi 9 í hjarta miðborgar Reykjavíkur þar sem hluti starfseminnar fer fram enn í dag. Steingrímur Guðmundsson reisti skólanum húsið gegn leigusamningi. Eftir hans dag keypti skólinn húsið. Húsið var teiknað af Rögnvaldi Ólafssyni og er meðal fyrstu steinsteypuhúsa á Íslandi. Samhliða flutningi í nýtt húsnæði stækkuðu bekkir og nemendum fjölgaði. Stofnuð var ný hússtjórnardeild og heimavist fyrir nemendur hennar og hluta annarra nemenda og var sú deild ásamt heimavist starfrækt til vorsins 1942. Kvennaskólinn var einkaskóli allt fram til ársins 1947 en þá er hann gerður að gagnfræðaskóla. Árið 1979 verður Kvennaskólinn að framhaldsskóla og starfar sem slíkur í dag. Það sama ár var tekin í notkun viðbygging við skólann og í dag eru þar kennslustofur og bókasafn. Frá árinu 1993 hefur hluti kennslunnar farið fram í Þingholtsstræti 37, í húsi sem kallað er Uppsalir en hýsti áður Verslunarskóla Íslands. Þar eru nú fjórar kennslustofur og mötuneyti nemenda. Haustið 2011 fékk skólinn svo Miðbæjarskólann, Fríkirkjuvegi 1, til afnota. Miklar breytingar í húsnæðismálum skólans hafa gert honum kleift að vaxa og dafna og haustið 2024 eru 676 nemendur í skólanum og starfsfólk er um 70 talsins.
Kvennaskólinn á sér langa og merka sögu með rætur í baráttu fyrir bættri menntun kvenna. Fyrstu öldina sem Kvennaskólinn í Reykjavík starfaði var hann eingöngu fyrir stúlkur en í dag er skólinn eins og aðrir framhaldsskólar fyrir alla nemendur óháð kyni. Vert er að minnast þess að Ingibjörg H. Bjarnason, einn af fyrrum skólastjórum skólans, var fyrst kvenna til að taka sæti á alþingi Íslendinga. Tíu skólastjórnendur hafa verið við skólann frá upphafi.
Kvennaskólinn í Reykjavík er bekkjaskóli og býður upp á nám til stúdentsprófs á félagsvísindabraut og náttúruvísindabraut, á starfsbraut sem ætluð er nemendum sem þurfa sérhæft einstaklingsmiðað nám er mætir færni þeirra og á íslenskubraut fyrir nemendur af erlendum uppruna. Sérstaða skólans er bekkjakerfið þar sem boðið er upp á sveigjanlegan námstíma og mikið og fjölbreytt val.
Gildi Kvennaskólans í Reykjavík eru umhyggja, ábyrgð og fjölbreytileiki. Skólinn leggur áherslu á að veita nemendum sem besta menntun í námsumhverfi þar sem þeim líður Eitt helsta markmið skólans er að veita nemendum haldgóða og vandaða menntun og þjálfa nemendur þannig að þeir öðlist færni á vinnumarkaði og hafi forsendur til að sækja sér frekari menntun.
Lögð er áhersla á sex grunnþætti í öllu skólastarfinu; læsi í víðum skilningi, sjálfbærni, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti, heilbrigði og velferð og sköpun. Markmiðið er að búa nemendur undir að verða gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í jafnréttis- og lýðræðissamfélagi og að nemendur taki ábyrga afstöðu til umhverfismála.
Skólabragur Kvennaskólans einkennist af persónulegu og hlýlegu andrúmslofti, jákvæðni, góðum samskiptum og gagnkvæmri virðingu. Lögð er áhersla á fjölbreytta kennsluhætti, samvinnu, ábyrgð, virka þátttöku, gagnrýna og skapandi hugsun.