við sýnum hvert öðru virðingu í öllum samskiptum og komum fram hvert við annað af tillitsemi, hvort sem um er að ræða rafræn eða önnur samskipti
við virðum það nám og starf sem fram fer innan skólans
við vinnum öll okkar verk af heiðarleika og heilum hug og stuðlum að því með virkum hætti að aðrir geri slíkt hið sama
við leitum þekkingar af heilindum og hlutlægni og leggjum áherslu á fagleg vinnubrögð, gagnrýna hugsun og málefnalegan rökstuðning
við gætum þess að vera málefnaleg og sanngjörn í umsögnum
við gætum þess að mismuna ekki hvert öðru, til dæmis vegna kyns, kynþáttar, kynhneigðar, aldurs, fötlunar, þjóðernis, trúarbragða eða skoðana
við leggjum ekki aðra í einelti
við látum ekki persónuleg tengsl hafa áhrif á samvinnu
við erum virkir þátttakendur í starfi og þróun skólans og lítum á það sem hluta starfs okkar að miðla upplýsingum sem geta orðið til þess að bæta starf skólans.
Samskipti skólans við forsjárforeldra/forráðamenn nemenda undir lögaldri:
starfsfólki skólans ber að hafa hagsmuni nemenda að leiðarljósi og gæta þagmælsku um einkamál nemenda og forráðamanna þeirra sem þeir fá vitneskju um
starfsfólk skóla hefur upplýsingaskyldu gagnvart forsjárforeldri/forráðamönnum nemenda yngri en 18 ára. Þó ber þeim að tilkynna til barnaverndaryfirvalda ef grunur er um brot á 16. og/eða 17. gr. laga nr. 80 frá 2002
starfsfólk skóla skal virða ákvörðunarrétt forsjárforeldra/ forráðamanna ósjálfráða nemenda og hafa ekki samband um málefni nemanda við sérfræðinga utan viðkomandi skóla nema slíkt sé óhjákvæmilegt til að tryggja velferð og rétt barnsins
starfsfólki skóla ber að hafa samvinnu við forsjárforeldri/forráðamenn eftir þörfum og gæta þess að upplýsingar sem þeir veita forráðamönnum séu áreiðanlegar og réttar.
Samskipti við aðra skóla hérlendis og erlendis, við aðila á vinnumarkaði og nærsamfélag:
í samskiptum við ytri aðila skal gæta trúverðugleika og réttsýni
upplýsingar sem skólinn veitir skulu vera réttar, áreiðanlegar og gefa rétta mynd og samhengi þess sem verið er að kynna
í samskiptum skal sýna gagnsæ vinnubrögð
skýrslur og upplýsingar um starfsemi skólans skulu vera aðgengilegar öllum, til að mynda á heimasíðu
starfsmenn og nemendur skulu hafa í huga að þeir eru fulltrúar skólans í samskiptum við aðila utan hans, til að mynda í tengslum við vettvangsheimsóknir og vettvangsnám
lögð er áhersla á að hafa hagsmuni skólans, nemenda og starfsfólks að leiðarljósi, án þrýstings frá eða skuldbindinga gagnvart stjórnvöldum, styrktaraðilum eða öðrum utanaðkomandi aðilum
skólinn hefur umhverfissjónarmið og lýðheilsu ávallt að leiðarljósi í rekstri sínum og sýnir með því gott fordæmi í umgengni við náttúru og samfélag.