Námstími

Námið er skipulagt þannig að hægt er að ljúka því á þremur árum með örlítið auknu námsálagi allar annirnar. Þetta er meðal annars gerlegt vegna þess að í byrjunaráföngum er byrjað „ofar“ en áður þ.e.a.s. þau atriði sem nemendur hafa þegar lært í grunnskóla eru ekki endurtekin. Að auki eru kennsludagar í nýju kerfi fleiri en í eldra kerfi.

Hverjum og einum er þó frjálst að taka námið á 3,5 til 4 árum.  Hægt er að hægja ferðina með því að geyma valgreinar og eins með því að fresta kjarnaáföngum sem ekki eru undanfarar annarra áfanga á næstu önnum.

Ekki er þó gert ráð fyrir að nemandi taki færri en 50 einingar á ári enda væri nemandinn þá ekki að taka fullt nám miðað við eldra kerfi. Fjórða árið myndi þá nýtast til að vinna upp þá áfanga sem frestað var. Nemendur sem velja þann kost að hægja á náminu fylgja þó bekknum sínum í kjarnagreinunum fyrstu þrjú árin en verða svo að mestu leyti í valhópum fjórða námsárið.

Nemendur sem vilja fylgja þeim námshraða sem nýja skipulagið gerir ráð fyrir geta samt valið að vera 3,5 eða 4 ár og bæta þá við sig einingum annaðhvort af sinni braut eða úr kjarna og vali annarra brauta.