Starfsmannastefna

Starfsmannastefna Kvennaskólans í Reykjavík er unnin samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og kjarasamningum á hverjum tíma.  

Markmið starfsmannastefnunnar: Fagmennska, virðing, gleði og umhyggja  

Markmið með starfsmannastefnu Kvennaskólans í Reykjavík er að skólinn hafi á að skipa vel menntuðu, áhugasömu og hæfu starfsfólki sem hefur velferð nemenda og skólans að leiðarljósi. Stefnunni er ætlað að stuðla að góðum starfsanda og starfsskilyrðum þar sem virðing og jafnrétti einkennir öll samskipti. Starfsmannastefnan felur í sér sameiginlega sýn starfsfólks á þá þætti sem gera skólann að eftirsóknarverðum vinnustað.  

Leiðarljós starfsmannastefnunnar eru:  

 • Samvinna og sveigjanleiki  
 • Vellíðan á vinnustað 
 • Viðleitni til að skapa starfsmönnum aðstæður til að samræma starf og einkalíf  
 • Að starfsmenn njóti hæfileika sinna og menntunar 
 • Að skólinn sé lærdómsvinnustaður  

 

Starfsmannastefna og aðgerðaráætlun 

Ráðningar 

Í Kvennaskólanum í Reykjavík er staðið löglega og faglega að ráðningum.  

 • Öll störf eru auglýst í samræmi við starfsmannalög  
 • Ráðning byggist á hæfni umsækjenda  
 • Jafnréttissjónarmiða er gætt við mannaráðningar  
 • Við úrvinnslu umsókna er leitað álits þeirra sem starfa munu nánast með hinum nýja starfsmanni  
 • Trúnaðarmanni eru veittar upplýsingar um ráðningakjör og hverjir umsækjendur voru sbr. 30. grein laga nr. 94 frá 1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna.  
 • Öllum umsækjendum um störf er tilkynnt um niðurstöðu þegar hún liggur fyrir  

Móttaka nýrra starfsmanna  

Kvennaskólinn í Reykjavík leggur áherslu á að taka vel á móti nýju starfsfólki og veita því fræðslu um helstu þætti í starfi skólans m.a. með því að;  

 • Allir fái leiðsögn og stuðning 
 • Tryggja verði allir fái nauðsynlegar upplýsingar og kynningu á helstu þáttum í starfsemi skólans 
 • Afhenda Handbók starfsmanna  
 • Allir fái í hendur starfslýsingu og upplýsingar um réttindi þeirra og skyldur  

Þróun í starfi/símenntun 

Í Kvennaskólanum í Reykjavík er starfsfólki gert kleift að efla þekkingu sína og hæfni í samræmi við síbreytilegar kröfur á vinnustaðnum m.a. með því að;  

 • Skapa starfsfólki skilyrði til að þróast í starfi og hafa áhrif á starfsumhverfi sitt.  
 • Hvetja starfsfólks skólans til að viðhalda færni sinni, bæta fagþekkingu sína og afla sér þekkingar sem nauðsynleg er starfsins vegna.  
 • Starfsfólk skal leitast við að laga sig að síbreytilegum kröfum sem starfið gerir til þess sem eru til dæmis tilkomin vegna tækninýjunga og faglegrar þróunar. 
 • Starfsmenn bera sjálfir ábyrgð á starfsþróun sinni í samráði við stjórnendur. 

Starfsmannasamtöl  

Mikilvægt er að starfsfólk fái notið hæfileika sinna í starfi og sé meðvitað um fagvitund sína.  

 • Starfsmaður á rétt á starfsmannasamtali þegar hann óskar, að minnsta kosti annað hvert ár. 

Starfslok/sveigjanleiki  

Við ákvörðun um starfslok er farið eftir þeim lögum og reglugerðum sem í gildi eru hverju sinni.  

 • Komi til uppsagnar starfsfólks skal framkvæmdin vera samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996. 
 • Við starfslok vegna aldurs skal leitast við að finna farsælar lausnir í samráði við viðkomandi starfsmann, aðilum til hagsbóta.  

Skólinn sem vinnustaður  

Vinnuvernd og öryggismál 

Í Kvennaskólanum er lögð áhersla á að ætið sé fylgt þeim reglum sem gilda um málefni er tengjast vinnuumhverfi.  

 • Öryggistrúnaðarmaður skal kosinn sem hefur það hlutverk að gæta þess að orðið sé við öllum eðlilegum öryggiskröfum á vinnustaðnum.  
 • Viðbragðs- og rýmingaráætlun skal vera öllum í skólanum kunn og skal kynna hana starfsfólki og nemendum reglulega.
 • Skólinn skal halda brunaæfingar a.m.k. einu sinni á ári.
 • Námskeið í skyndihjálp fyrir starfsfólk skal halda annaðhvert ár eftir því sem aðstæður leyfa. 
 • Tryggja þarf sérstaklega öryggi starfsmanna sem þurfa að fara á milli skólahúsa.

Fjölskyldan  

Starfsfólki skal gert mögulegt að samræma einkalíf og vinnu, meðal annars með sveigjanlegum vinnutíma eftir því sem kostur er.  

 • Starfsfólki skal gert kleift að sinna tímabundinni fjölskylduábyrgð sem skapast af veikindum í nánustu fjölskyldu.
 • Ekki er litið á það sem mismunun þó tekið sé sérstakt tillit til kvenna vegna þungunar, barnsburðar og brjóstagjafar.
 • Starfsfólk sýni sveigjanleika ef aðstæður á vinnustað kalla á tilfærslur/breytingar. Slíkur sveigjanleiki þarf ætíð að rúmast innan kjarasamninga. 

Lýðræði og samfélag 

Heilsueflandi vinnustaður 

Í Kvennaskólanum í Reykjavík er lögð áhersla á vellíðan á vinnustaðnum og starfsfólk er hvatt til að tileinka sér jákvæðan og heilbrigðan lífsstíl og vistvænan ferðamáta.  

 • Starfsfólk getur sótt um samgöngustyrk.  
 • Í mötuneyti starfsmanna skal boðið upp á hollan og góðan mat. Kanna skal viðhorf starfsmanna til mötuneytis á 2- 3 ára fresti.  

Stjórnunarhættir  

Stjórnunarhættir í Kvennaskólanum í Reykjavík eiga að vera lýðræðislegir og sanngjarnir þar sem unnið er að hugmyndafræði og markmiðum í samráði við starfsfólk.

 • Stjórnendur bera ábyrgð á að upplýsingaflæði sé gott og boðleiðir skýrar.
 • Leitast skal við að ná niðurstöðu um álitamál með lýðræðislegum hætti. 
 • Stjórnendur bera ábyrgð á að ágreiningsmálum sé beint í réttan farveg.
 • Stjórnendur bera ábyrgð á að langtímamarkmiðum skólans sé náð.