Meðferð ágreiningsmála og viðurlög við brotum á skólareglum

Ágreiningsmál vegna skólasóknarreglna
Ferlið sem fer í gang þegar fjarvistir nemanda stefna í óefni hefst á munnlegri áminningu umsjónarkennara og síðan skriflegri áminningu áfangastjóra ef sú fyrri ber ekki árangur. Láti nemandi sér ekki segjast og bæti mætingu er næsta skref brottvísun. Í fyrsta skipti sem nemanda er vísað úr skóla er endurinnritun möguleg. Haldi brot nemenda áfram eftir endurinnritun er málinu vísað til skólameistara sem metur hvort einhverjar ástæður réttlæti áframhaldandi skólavist nemandans. Forráðamenn ólögráða nemenda fá afrit af bréfasendingum og geta þeir eða nemandinn sjálfur komið andmælum á framfæri.

Ágreiningsmál vegna námsmats
Nemendur eiga rétt á að fá útskýringar á mati sem liggur að baki lokaeinkunn í áfanga. Í lok hverrar annar er prófsýningardagur þar sem nemendur geta skoðað úrlausnir sínar og fengið skýringar á matinu en þar að auki eiga þeir rétt á þeim skýringum innan fimm virkra daga frá birtingu einkunnar. Ef nemandi unir ekki þeim niðurstöðum getur hann snúið sér til skólameistara og óskað eftir prófdæmingu óvilhalls prófdómara. Slík beiðni þarf að vera skrifleg og í henni þarf að koma fram rökstuðningur fyrir beiðninni. Skólameistari hefur þá milligöngu um að útvega prófdómara og er úrskurður hans endanlegur og verður ekki skotið til æðra stjórnvalds sbr. grein 11.4 í Aðalnámskrá framhaldsskóla 2. útg. 2012.

Ágreiningur og ferill mála vegna brota á prófa- og verkefnareglum
Ef nemandi er staðinn að því að nota óleyfileg gögn, veita eða þiggja hjálp frá öðrum nemanda, telst hann fallinn í viðkomandi prófi eða verkefni. Upplýsingar um málið eru skráðar í athugasemdakerfi Innu. Ítrekuð brot geta leitt til brottvísunar úr skóla. Það ferli sem fer í gang þegar um slíkt er að ræða felst í því að formleg tilkynning um málið er send til viðkomandi nemanda og einnig til forráðamanna ólögráða nemenda. 

Brot á skólareglum og viðurlög
Viðbrögð við broti á skólareglum geta verið eftirfarandi, eftir alvarleika brotsins: Munnleg ábending frá starfsmanni skólans, tiltal skólameistara, skrifleg áminning skólameistara, brottvikning úr áfanga, brottvikning úr skóla um lengri eða skemmri tíma. Við ítrekuð brot kemur til skriflegrar áminningar til nemandans og forráðamanns hans ef um ólögráða nemanda er að ræða. Nemandinn eða forráðamenn hans hafa andmælarétt telji þeir á sér brotið. Láti nemandi sér ekki segjast og haldi uppteknum hætti varðandi brot á reglum skólans getur komið til brottvikningar hans ef skólaráð tekur þá ákvörðun eftir umfjöllun um málið. Brot á almennum hegningarlögum verða kærð til lögreglu. 

Ferill ágreiningsmála vegna samskipta

  • Ef ágreiningur verður á milli starfsmanna skólans geta aðilar málsins leitað til skólameistara sem ræðir við deiluaðila hvorn í sínu lagi og síðar saman. Skólameistari leitar sátta með því að benda deiluaðilum á leiðir til að leysa ágreininginn.
  • Ef ágreiningur er milli tveggja eða fleiri nemenda geta þeir leitað til umsjónarkennara eða náms- og starfsráðgjafa til að fá aðstoð við lausn málsins. Takist þeim ekki að leysa málið skal því vísað til skólameistara sem leitar frekari leiða til lausnar á málunum.

Leitast skal við að leysa ágreiningsmál á vettvangi skólans. Uni nemandi eða forráðamenn hans ekki úrskurði í deilumáli má vísa málinu til mennta- og barnamálaráðuneytisins. Lögð er áhersla á að afgreiða brot á skólareglum með skjótum hætti en jafnframt er áhersla á öryggi og vandvirkni við úrlausn og afgreiðslu.