- Nemendur skulu mæta stundvíslega og undirbúnir í allar kennslustundir sem þeir eru skráðir í.
- Komi nemandi of seint í tíma fær hann skráð seinkomu (S). Séu liðnar 15 mínútur af kennslustund þegar nemandi mætir fær hann skráða á sig fjarvist (F).
- Fjarvist úr kennslustund reiknast 3 stig og seinkoma 1 stig.
- Veikindi skal tilkynna skólanum samdægurs (forráðamenn skrá í Innu eða senda tölvupóst á kvenno@kvenno.is). Langvarandi og tíð veikindi verður að staðfesta með læknisvottorði og getur skólinn vísað slíkum málum til skólalæknis.
- Hægt er að sækja um leyfi en þau reiknast sem fjarvist með útskýringu (forráðamenn skrá leyfi í Innu eða senda tölvupóst á kvenno@kvenno.is). Ekki er hægt að fá felld niður fjarvistastig vegna læknisferða eða annarra útréttinga á skólatíma.
- Ef um lengra leyfi er að ræða, t.d. vegna utanlandsferðar, þarf að sækja um það skriflega til námstjóra. Slík leyfi eru aðeins veitt þeim nemendum sem eru með 85% raunskólasókn eða hærri og eru skráð sem fjarvist með útskýringu.
- Fari raunskólasókn niður fyrir 80% um leið og hún er undir 90% með vottorðum er litið svo á að nemandinn hafi sagt sig úr skóla.
- Skólasókn nemanda er birt í Innu. Nemendur og forráðamenn nemenda undir 18 ára aldri geta séð skólasókn sína í Innu. Úttekt er gerð á skólasókn nemenda þrisvar til fjórum sinnum á önn. Ferlið sem fer í gang þegar fjarvistir nemanda stefna í óefni hefst á munnlegri áminningu umsjónarkennara og ef skólasókn batnar ekki þá skriflegri áminningu námstjóra (áminningarbréfi). Láti nemandi ekki segjast og bæti mætingu kemur til brottvísunar (úrsögn úr skóla). Í fyrsta skipti sem nemanda er vísað úr skóla er endurinnritun möguleg. Haldi brot nemanda áfram eftir endurinnritun er málinu vísað til skólaráðs sem metur hvort einhverjar ástæður réttlæti áframhaldandi skólavist nemandans. Forráðamenn ólögráða nemenda fá afrit af bréfasendingum.
- Athugið: Námsáætlanir einstakra greina, ekki síst símatsáfanga, geta tiltekið lágmarksskólasókn og þátttöku í verkefnum skv. samþykktum deilda/deildafunda.
- Fyrir 96-100% raunskólasókn fá nemendur eina skólasóknareiningu á önn.
Skólasóknarreglur eru birtar með fyrirvara um breytingar sem gerðar kunna að verða og auglýstar eru ef svo ber til.
(Síðast uppfært í mars 2022)