Starfsbraut

Starfsbrautin er fjögurra ára nám að loknum grunnskóla og í samræmi við starfsár framhaldsskólans. Kennsla hefst um miðjan ágúst og lýkur um miðjan maí. Nám á starfsbraut er ætlað nemendum sem þurfa sérhæft einstaklingsmiðað nám er mætir færni þeirra.

Á brautinni fá nemendur tækifæri til að stunda nám við hæfi og viðhalda og auka þekkingu sína og færni til frekara náms. Nám og kennsla eru skipulögð með tilliti til þess nemendahóps sem innritast á brautina á hverjum tíma. Áhersla er lögð á fjölbreytta kennsluhætti sem eru sniðnir að þörfum og getu nemenda. Námið er einstaklingsmiðað og geta áherslur og þátttaka í áföngum verið mismunandi á tímabilinu.

Á starfsbrautinni er unnið er út frá styrkleikum hvers og eins og áhersla er á að efla sjálfsmynd nemenda, auka félagsleg samskipti og undirbúa þá undir áframhaldandi nám við hæfi og/eða þátttöku á vinnumarkaði. Að námi loknu eiga nemendur að hafa fengið almennan undirbúning fyrir lífið og í grunnþáttum menntunar. Námið er á fyrsta þrepi, þ.e. almenn og hagnýt þekking sem miðast við stöðu hvers og eins. Möguleiki er á að nemendur taki áfanga á öðrum námsþrepum og námsbrautum, uppfylli þeir skilyrði þar um.

Kennsluhættir brautarinnar eru eftir hugmyndafræði leiðsagnarnáms þar sem áherslan er að valdefla nemendur, svo þeir verði færir um að taka ábyrgð á eigin námi. 

Til að hámarka námsárangur nemenda skiptir miklu máli að nemendur séu með rafræn skilríki til að komast inn á námskerfi skólans, sem og hafi aðgang að tölvu. 

Deildarstjóri starfsbrautar er Elísa Davíðsdóttir, elisad(hjá)kvenno.is

Námsbrautarlýsing: yfirlit yfir kjarna- og valáfanga

Starfsbraut Kvennaskólans tók til starfa haustið 2023 og er vinna við ritun námsbrautarinnar í gangi. 

Hér má sjá kynningarglærur frá opna húsinu þann 9. febrúar.