Verklagsreglur vegna kennslu-/áfangamats

  1. Á hverri önn fer fram kennslu- og áfangamat í skólanum. Matið fer fram á seinni hluta annar og stýrir verkefnastjóri sjálfsmats verkefninu. Matið er liður í eftirliti með gæðum náms og kennslu áfanga og er hluti af innra mati skólans. 
  2. Meginmarkmið kennslu- og áfangamatsins er að auka gæði náms og skólastarfs og stuðla að umbótum. Kennslu- og áfangamatið er í samræmi við VII. kafla framhaldsskólalaga nr. 92/2008 þar sem kveðið er á um að skólar meti með kerfisbundnum hætti árangur og gæði skólastarfs. 
  3. Lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000 gilda um rafræna vinnslu upplýsinga sem verða til við fyrirlögn kennslu-/áfangamats en vinnslan er heimil samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. laganna.
  4. Verkefnastjóri sjálfsmats hefur umsjón með framkvæmd kennslu- og áfangamats í samráði við skólameistara og matsteymi skólans. Miðað er við að 1/3 kennslugreina sé metinn á hverri önn og hver kennari/áfangi ekki í sjaldnar en á tveggja ára fresti. 
  5. Kennslu- og áfangamatið fer fram í gegnum Innu. Að loknu mati eru niðurstöður birtar kennara í Innu og hafa aðeins skólameistari, aðstoðarskólameistari og námstjóri aðgang að niðurstöðum í heild. Þeir aðilar sem hafa aðgang að niðurstöðunum eru bundnir trúnaði. Skólameistari ber ábyrgð á stýringu aðgangs að niðurstöðum kennslu-/áfangamats. 
  6. Á sömu önn eða næstu eftir að kennslu- og áfangamat hefur farið fram boða stjórnendur viðkomandi kennara í starfsmannasamtal. Í samtalinu er stuðst við ákveðið form sem báðir aðilar hafa til hliðsjónar þegar samtalið fer fram. Áður en samtalið fer fram er stjórnandi viðstaddur eina kennslustund þar sem fylgst er með kennsluháttum, samskiptum kennara og nemanda, samskiptum nemenda innbyrðis, þátttöku nemenda, agastjórnun, skipulagi o.s.frv. Í starfsmannasamtalinu er þá stuðst við mat nemenda úr kennslu- og áfangamati, heimsókn í kennslustund og sjálfsmat kennara. Skólameistari, aðstoðarskólameistari og námstjóri annast starfsmannasamtölin. 
  7. Niðurstöður kennslu- og áfangamatsins eru varðveittar í Innu. Advania sér um rekstur Innu og tryggir að gögnin séu varðveitt með tryggilegum hætti. 

 

(Síðast uppfært 8.11.2021)