- Kynning fyrir 10. bekkinga
- Skólinn
- Námið
- Þjónusta
- Áfangar
- English
Almennar reglur
Gagnkvæm virðing, kurteisi, heiðarleiki og ábyrgð skulu ríkja í samskiptum nemenda og starfsfólks.
Nemendur eiga rétt á að þeim sé sýnd kurteisi, tillitsemi og virðing og að þeir séu ekki beittir einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni eða ofbeldi af samnemendum eða starfsfólki skóla.
Vinnufriður á að ríkja í skólanum. Kennarar eru verkstjórar í kennslustundum og ber nemendum að fara að fyrirmælum þeirra svo allir sem mæta í kennslustundir geti unnið að námi sínu án truflunar.
Nemendur skulu mæta á réttum tíma, undirbúnir, með viðeigandi námsgögn og vera virkir í kennslustundum og lúta þar verkstjórn og fyrirmælum kennara.
Myndatökur og/eða upptökur af nemendum og starfsfólki skólans eru óheimilar án leyfis viðkomandi aðila.
Notkun farsíma og annarra snjalltækja í kennslustundum er óheimil nema því aðeins að hún sé í þágu kennslunnar og háð samþykki kennara hverju sinni. Nemendum er ekki heimilt að taka kennslustund upp, hvorki að hluta né í heild, án vitundar og samþykkis kennara og allra sem í henni eru. Sama gildir um skjáskot. Þetta á einnig við um rafrænar kennslustundir.
Nemendur og starfsfólk skulu fara vel með muni skólans, ganga vel um húsnæði og lóð hans og gæta fyllsta hreinlætis innan dyra jafnt sem utan.
Spjöll/skemmdir sem nemendur kunna að vinna á húsnæði skólans eða eigum hans skulu þeir bæta að fullu.
Kvennaskólinn er tóbakslaus skóli. Allar tegundir tóbaksnotkunar eru bannaðar í húsakynnum skólans, lóð, samkomum og í ferðalögum á vegum skólans. Sama gildir um notkun rafrettna.
Í skólanum, á lóð skólans, á samkomum og/eða í ferðalögum á vegum skólans skal enginn hafa áfengi eða önnur hugbreytandi efni um hönd né vera undir áhrifum þeirra.
Nemendur bera sjálfir ábyrgð á að kynna sér reglur, stefnur og starfsáætlanir skólans og kynna sér þær leiðir og möguleika sem þeir hafa til að koma málum sínum á framfæri.
Brot á skólareglum og viðurlög
Nemendum ber að kynna sér skólareglur. Vanþekking á reglunum leysir þá ekki undan ábyrgð.
Viðbrögð við broti á skólareglum geta verið eftirfarandi, eftir alvarleika brotsins: Munnleg ábending frá starfsmanni skólans, tiltal skólameistara, skrifleg áminning skólameistara, brottvikning úr áfanga, brottvikning úr skóla um lengri eða skemmri tíma.
Við ítrekuð brot kemur til skriflegrar áminningar til nemandans og forráðamanns hans ef um ólögráða nemanda er að ræða. Nemandinn eða forráðamenn hans hafa andmælarétt telji þeir á sér brotið. Láti nemandi sér ekki segjast og haldi uppteknum hætti varðandi brot á reglum skólans getur komið til brottvikningar hans ef skólaráð tekur þá ákvörðun eftir umfjöllun um málið. Brot á almennum hegningarlögum verða kærð til lögreglu.
Sjá nánar í reglugerð nr. 326/2016 um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í framhaldsskólum og meðferð ágreiningsmála og viðurlög við brot á skólareglum.