Anh Ngoc, Bríet, Freyja Katrín og Ingunn Anna
Sumarið 2025 tók nemandi úr Kvennaskólanum og nokkrir nemendur úr Menntaskólanum við sund þátt í verkefninu
STEM fyrir framtíðina. Anh Ngoc nemandi á 2. ári í Kvennaskólanum, stóð fyrir verkefninu auk þess að gera sjálf rannsókn. Markmið verkefnisins er að auka áhuga ungmenna á tækni- og raungreinum (STEM) og veita stelpum og stálpum tækifæri til að stunda stafræna vísindarannsókn undir leiðsögn háskólakennara og framhaldsnema við ýmsa háskóla. Verkefnið stóð yfir í sex vikur í júlí og ágúst. Í verkefninu fengu nemendur að kynnast rannsóknaraðferðum og vinnubrögðum sem nýtast þeim í framhaldsnámi í tækni- og vísindagreinum. Leiðbeinendur í verkefninu voru meðal annars úr Stanford University, University of Southern California, University of British Columbia, Háskólanum í Reykjavík og Háskóla Íslands. Í kjölfarið var haldið ráðstefnu á netinu þar sem þátttakendur gátu kynnt verkefnin sín.
Anh Nogc og nemendur úr Menntaskólanum við Sund unnu rannsóknarverkefni á ensku undir leiðsögn erlendra háskólakennara og skrifuðu vísindagrein í kjölfarið.
Anh Nogc rannsakaði NMR (Nuclear Magnetic Resonance), sem er helsta greiningartækni lífrænna efna. Tæknin er helst notuð til að greina byggingu sameinda með því skoða hegðun kjarna í segulsviði. Rannsóknin hennar fjallaði um að ákvarða efnabyggingu efnasambandsins C19H3ON2S4 með því að nota NMR-rófið. Meðan hún vann verkefnið fékk hún tækifæri til að heimasækja Raunvísindastofnun HÍ og sjá hvernig NMR-tækið virkar í raun og veru.
Freyja Katrín Oddsteinsdóttir nemandi í MS rannsakaði þróun vistvænna fjölliða og möguleika þeirra til að leysa hefðbundið plast af hólmi. Hún skoðaði efni eins og PHA, sellulósa-, prótein- og þörungaplast og hvernig þau geta minnkað umhverfisáhrif og stutt við hringrásarhagkerfi.
Bríet Pétursdóttir nemandi í MS fjallaði um plastmengun og lausnir sem byggja á hringrásarhagkerfi. Hún skoðaði hvernig ný efni og efnafræðilegar endurvinnsluaðferðir geta breytt úrgangi í verðmætar byggingareiningar og hvernig lífbrjótanlegt plast og nýjar efnasamsetningar geta stuðlað að sjálfbærni.
Ingunn Anna Jónsdóttir nemandi í MS beitti stærðfræðilegu SIR-líkani til að greina útbreiðslu svokallaðrar Akureyrarveiki sem herjaði á Norðurland á árunum 1948–1949. Í verkefninu er sýnt hvernig smit dreifðist í litlu samfélagi og hvernig breytur eins og smitstuðull og batahraði hafa áhrif á þróun faraldra.