Útskrift

 

Það var hátíðleg stund í dag þegar fjórir nemendur brautskráðust frá Kvennaskólanum í Reykjavík. Kolfinna Jóhannesdóttir skólameistari stýrði athöfninni og flutti ávarp með heillaóskum til nýstúdenta. Hún sagði meðal annars að í skólanum væri lögð rík áhersla á gagnrýna hugsun og samfélagslega vitund nemenda með það að markmiði að útskrifa nemendur sem gera samfélagið betra. Hún sagði að samhliða metnaði og ábyrgð nemenda á námi þá skipti persónuleg og hlýleg samskipti og tjáning máli og sú samskiptahæfni sem nauðsynleg er í samskiptum ólíkra einstaklinga í ólíkum aðstæðum. 

Tveir nemendur í 3FA fluttu tónlist í athöfninni. Jökull Hjaltason spilaði verk eftir Frédéric Chopin á píanó og Ylfa Ýr Welding Hákonardóttir flutti verk eftir Philippe Gaubert á þverflautu við undirleik Jökuls. Glæsilegur flutningur hjá þeim báðum og mikið listafólk þarna á ferð. 

Ásdís Arnalds aðstoðarskólameistari flutti fallegt erindi þar sem hún talaði um hversu mikil forréttindi það væru að vinna með ungu fólki alla daga. Hún hvatti nýstúdenta til að hafa góðmennsku að leiðarljósi í einu og öllu í lífinu. Hún vitnaði meðal annars í bókina Bróðir minn Ljónshjarta þar sem segir að ef allir væru eins og hinn góðhjartaði Jónatan þá væri engin illska til í heiminum. 

Það var síðan hið frábæra Sean Rakel Ægisdóttir sem sló botninn í fallega athöfn með ávarpi fyrir hönd nýstúdenta. Hán ræddi skemmtilega um skólagönguna og hvernig faraldurinn hefði litað fyrsta skólaárið. Hán var líka þakklæti ofarlega í huga og sagði það hafa verið heppið hversu opnir nemendur og kennarar skólans hafi verið varðandi þekkingu á hinsegin málefnum. Virkilega falleg ræða hjá Sean Rakel sem sýnir vel hvað unga fólkið okkar er flott. Framtíðin er svo sannarlega björt.

Starfsfólk skólans óskar nýstúdentum og fjölskyldum þeirra innilega til hamingju með áfangann.