Tilhlökkun í upphafi skólaárs

 

Skrifstofan er nú opin á ný eftir gott sumarleyfi. Framundan er spennandi skólaár með alls kyns áskorunum og skemmtun.

Nýr aðstoðarskólameistari hóf störf þann 4. ágúst síðastliðinn. Ásdís Arnalds, íslenskukennari og fyrrum fagstjóri og brautarstjóri við skólann, tók við starfinu af Oddnýju Hafberg sem lýkur nú afar farsælum starfsferli.

Undirbúningur fyrir skólastarfið er í fullum gangi þó enn ríki óvissa um skipulag skólastarfs vegna Covid-19. Við bíðum fyrirmæla frá stjórnvöldum og munum mæta öllum áskorunum með bros á vör, staðráðin í að gera okkar besta eins og ævinlega.

Við hvetjum nemendur og forráðamenn til að fylgjast vel með upplýsingum á heimasíðu skólans þegar nær dregur skólasetningu. Dagskrá fyrir nýnema er fyrirhuguð miðvikudaginn 18. ágúst og kennsla hefst svo samkvæmt stundaskrá fimmtudaginn 19. ágúst.

Námsgagnalista (bókalista) má finna í Innu sem er upplýsinga- og námskerfi skólans. Nota þarf íslykil eða rafræn skilríki til að skrá sig inn. Skráðir aðstandendur nemenda yngri en 18 ára hafa aðgang með rafrænum skilríkjum. Stundaskrá verður birt á Innu síðar í vikunni.

Í upphafi skólaárs er líka gott að glöggva sig á helstu dagsetningum á skólaárinu og skrá hjá sér. Einnig er gott að fylgjast með fréttum úr skólastarfinu á facebook og instagram.

Endilega hafið samband ef frekari spurningar vakna.