Raddir nemenda í Alþingiskosningum og spennandi Skuggakosningar


Blaðamaður frá Stúdentablaðinu, Mahdya Malik, heimsótti hópa í ensku og stjórnmálafræði nýverið. Hún var forvitin að heyra hvaða málefni brynnu á menntaskólanemum varðandi komandi Alþingiskosningar. Líflegar umræður spunnust um ýmis málefni hjá unga fólkinu okkar. Þau ræddu m.a. umhverfismál, kynferðisbrotadóma, feðraveldið, heilbrigðiskerfið, húsnæðismál, ferðamannaiðnaðinn, gjaldmiðilinn, vegagerðina og flugvöllinn. Margir nefndu líka aðgerðaleysi stjórnvalda og að þau vildu sjá meiri og hraðari breytingar í kerfinu en ekki innantóm loforð. Þau ræddu líka mikilvægi þess að ungt fólk tæki virkan þátt í stjórnmálum og mæti á kjörstað.

Svo skemmtilega vill til að á morgun, fimmtudaginn 9. september, tekur Kvennaskólinn einmitt þátt í svokölluðum Skuggakosningum þar sem framhaldsskólanemar um allt land kjósa sína fulltrúa á Alþingi. Megintilgangur kosninganna er að þjálfa nemendur sem ekki hafa náð kosningaaldri í að kjósa og undirbúa þá sem hafa aldur til að kjósa í fyrsta sinn. Jafnframt fær ungt fólk reynslu í að skipuleggja og framkvæma hið lýðræðislega ferli kosninga.

Allir nemendur Kvennaskólans eru á kjörskrá og verður kjörstaður í Uppsölum á milli kl.9:00-16:00. Kjósendur þurfa að muna eftir persónuskilríkjum. Það eru nemendur í stjórnmálafræði valáfanganum í Kvennó sem sjá um framkvæmd kosninganna í ár með aðstoð kennarans, Valgerðar Stellu Kristjánsdóttur. Nánari upplýsingar um verkefnið á  má finna á eftirfarandi vefsíðu: https://egkys.is/skuggakosningar/

Við hvetjum alla nemendur skólans til að taka þátt í þessu frábæra verkefni.