Mema 2020: Hópur úr Kvennó í topp fimm

Nú hefur lokahóf Mema – Menntamaskínu nýsköpunarkeppninnar 2020 farið fram í streymi eins og gengur og gerist um þessar mundir. Tæknin var eitthvað að stríða skipuleggjendum en engu að síður var gaman að bæði umhverfisráðherra og iðnaðarráðherra ávörpuðu keppendur auk rektors Háskóla Íslands sem gaf sigurlaunin. Einnig voru sýnd myndbönd frá keppendum sjálfum þar sem kynntar voru allar 17 hugmyndirnar. Allir keppendur sem skiluðu inn hugmyndum fengu bókina Toppstöðin að launum auk þess sem 1. – 3. sætið fengu vegleg verðlaun, sigurliðið fær niðurfellingu skólagjalda í eitt ár í HÍ kjósi þau að hefja þar nám.

Að þessu sinni voru sjö skólar sem tóku þátt og sendu inn 17 hugmyndir. Kvennaskólinn var með í fyrsta sinn og verður að teljast viðunandi árangur að annað liðið, sem hannaði koldíoxíðætu fyrir bifreiðar, komst í hóp þeirra fimm bestu og hitt liðið, sem hannaði hamp-mottur til að hreinsa sjó, fylgdi fast á hæla þeirra.

Sigurvegari MEMA 2020 er teymi Fjölbrautaskólans í Breiðholti með hugmyndina Gára. Úr endurnýttum pappa eru unnar veggplötur sem bæta hljóðvist í húsnæði. Annað sæti í MEMA 2020 hlaut verkefnið Neyðarhnappurinn Björg frá Tækniskólanum. Þriðja sæti í MEMA 2020 hlaut verkefnið Rykhettan frá MH, rykhettan safnar svifryki við umferðagötur og hreinsast rykið úr með rigningarvatni.