Margt um að vera í lögfræðiáfanga

 

Á haustönn var nóg um að vera í valáfanganum LÖGF2LÖ05 því í viðbót við verkefnavinnu í kennslustundum var margt annað spennandi á döfinni.

Strax í upphafi var farið í skemmtilega gönguferð með kennaranum þar sem sýndir voru mikilvægir staðir sem tengjast lögfræðinni, til dæmis Alþingishúsið þar sem laganám hófst á Íslandi, Héraðsdómur Reykjavíkur, Hæstaréttur Íslands, Stjórnarráðshúsið og fangelsið gamla við Skólavörðustíginn. Allir þessir staðir eru í nánasta umhverfi Kvennaskólans og því auðvelt og skemmtilegt að brjóta upp skóladaginn með þessum hætti. 

Þá var farið í heimsóknir í Héraðsdóm Reykjavíkur til að hlusta á málflutning, Hæstarétt Íslands þar sem hópurinn fékk kynningu hjá Benedikt Bogasyni forseta Hæstaréttar og að lokum var lagadeild Háskóla Íslands heimsótt. Þar tóku tveir laganemar á móti hópnum, þau Snædís Lilja Káradóttir og Njörður Bruun en svo skemmtilega vill til að þau eru fyrrverandi nemendur Kvennaskólans. Einnig fékk hópurinn góðan gest í kennslustund þegar Helga Sigrún Harðardóttir kynnti starfsemi Staðlaráðs Íslands. Á ljósmynd til hliðar má sjá Hæstarétt og á neðri myndinni má sjá Lögberg, hús lagadeildar Háskóla Íslands. Við þökkum öllum þessum aðilum kærlega fyrir.