Lögfræðinemar í göngutúr um miðborgina

Í Kvennaskólanum er boðið upp á tvo valáfanga í lögræði fyrir 3. bekk, fyrri áfanginn er á haustönn og framhaldsáfanginn á vorönn. Venja er að fara í heimsóknir og fá heimsóknir fræðimanna á báðum önnum en vegna heimsfaraldurs varð að sleppa slíku á haustönn. En á dögunum fór framhaldshópurinn í göngutúr í miðborgina í fallegu en ísköldu veðri og var gengið að nokkrum mikilvægum byggingum sem tengja má við lögfræði og spjallað um spennandi efni eins og lagasetningu, dóma og fangelsi. Við Stjórnarráðið var kuldinn orðinn það mikill að hópurinn ákvað að þylja hárri röddu mikilvægar meginreglur laga úr rómverskum rétti eins og ,,pacta sunt servanda” (samningar skulu standa) á latínu. Vakti þetta kátínu allra, ekki síst starfsmanna Stjórnarráðsins sem litu út um gluggana að sjá flottan hópinn með grímur.