Líf í hverri skólastofu

Þessa önn hefur Kvennaskólinn verið með blöndu af fjar- og staðnámi. Það hefur reynt mikið á okkur öll en seiglan í nemendum hefur verið aðdáunarverð. Síðastliðinn mánudag breyttist svo loksins skólahaldið og við kvöddum fjarnámið, vonandi fyrir fullt og allt. Nú er líf í hverri skólastofu og við finnum fyrir gleðinni í andlitum allra þó grímurnar feli brosin ennþá. Það var til dæmis mikið stuð í handverkstíma hjá Ólínu Ásgeirsdóttur í gær. Þar sátu nemendur og prjónuðu af miklum myndarskap. Samkvæmt Ólínu eru á þessari önn fjörutíu nemendur í þessum valáfanga og hafa þeir sjaldan verið jafn áhugasamir og skemmtilegir eins og nú. Það er gott að finna að hjartað slær sem aldrei fyrr í Kvennó og við verðum fljót að finna taktinn aftur.