Kvenskælingur sigraði efnafræðikeppnina

 

Þau miklu gleðitíðindi bárust að María Margrét Gísladóttir í 3NA hafi gert sér lítið fyrir og sigrað landskeppnina í efnafræði. Alls voru 48 nemendur úr sex skólum sem tóku þátt í forkeppninni í febrúar. Fjórtán efstu nemendunum var síðan boðið að taka þátt í úrslitakeppni sem haldin var í Háskóla Íslands helgina 2.-3. mars. Það var til mikils að vinna því fjórum efstu keppendum úrslitakeppninnar er boðið að taka þátt í Norrænu efnafræðikeppninni Í Noregi og Alþjóðlegu Ólympíukeppninni í efnafræði í Saudi Arabíu í sumar.

Ánægjulegt var að sjá að alls fimm skólar áttu fulltrúa í úrslitakeppninni í ár; Kvennaskólinn, Flensborgarskólinn, Menntaskólinn í Reykjavík, Menntaskólinn á Akureyri og Menntaskólinn við Hamrahlíð.

Við erum að sjálfsögðu að springa úr gleði yfir árangri Maríu. Við óskum henni innilega til hamingju með afrekið og hlökkum til að fylgjast með keppnum sumarsins!