Kór Kvennaskólans í Kófinu

Ástandið hefur heldur betur kallað á skapandi leiðir til söngs fyrir kórinn, en hann hefur starfað nær eingöngu í gegnum fjarkennslu þessa haustönn. Kórmeðlimir hittu kórstýru á Zoom í hverri viku og lærðu ný lög í gegnum tölvuna. Þó nokkrir nýir meðlimir af fyrsta ári gengu til liðs við hópinn og það verður að hrósa þeim sérstaklega fyrir að stíga út fyrir þægindarammann og syngja og æfa ein við tölvuna. Nemendur sýndu mikinn dug og hug í þessum aðstæðum og þreyttu verkefni þessi eðlis að þeir tóku sína rödd upp við undirleik kórstýru og sendu til hennar. Það var svo í fyrsta skipti í dag þar sem kórinn hittist nærri allur úti við - til að syngja örlítið saman, grímuklædd og með tvo metra á milli. Í ljós kom að heimaæfingar skiluðu sér bara nokkuð vel. Við vonum þó heitt og innilega að bjartari tímar séu framundan í samveru og söng - því það er náttúrulega toppurinn á tilverunni í svona starfi.

Kórinn óskar ykkur gleðilegra jóla og hlakkar til að halda tónleika. 

Með góðri kveðju,
Lilja Dögg, kórstýra.