Jafnréttisvikan hefst í dag

Á sjálfan kvenréttindadaginn 8. mars hefjum við hina árlegu jafnréttisviku í Kvennó. Dagskráin er alla vikuna og það verður boðið upp á fjölbreytta dagskrá og nemendur skólans ætti að taka vel eftir skilaboðunum sem verða hengd upp um ganga skólans auk þess sem lagalisti fólksins verður með jafnréttisþema.

Við byrjum vikuna á því að Sigga Dögg, kynfræðingur, kemur til okkar í hádegisheimsókn í Uppsali. Til þess að gæta sóttvarna verður takmarkaður fjöldi sem getur sest í salinn hjá henni en aðrir geta fylgst með á streymi í gegnum Keðjusíðuna.

Á þriðjudeginum kemur Þorsteinn V. Einarsson sem heldur úti miðlinum #karlmennskan og hann verður aftur í Uppsölum og aftur höfum við sama fyrirkomulag á þar sem þeir sem komast ekki í salinn vegna fjöldatakmarkana geta horft á streymi.

Síðar í vikunni mun elítunefndin dreifa gleði til nemenda, með fjarlægðartakmörkunum og sóttvörnum enda alltaf með öryggið á oddinum! Þá verður spurningakeppni að kvöldi fimmtudags sem er skipulögð af góðgerðarnefnd og það verður jafnréttisþema sem svífur þar yfir vötnum. Í vikunni munum við einnig frumsýna nýtt myndskeið frá Pedróu sem var sérstaklega gert fyrir jafnréttisviku.

Þessi vika verður spennandi og fróðleg. Jafnréttisteymið og Þóra Melsteð eru búin að vinna hörðum höndum að undirbúningi þessarar viku og við hvetjum ykkur öll til að taka þátt og kynna ykkur málefnin.