Frumkvöðlar í Kvennó

Helga Rún Guðmundsdóttir var einn vinningshafa í frumkvöðlakeppninni í fyrra.
Helga Rún Guðmundsdóttir var einn vinningshafa í frumkvöðlakeppninni í fyrra.

 

Einn af mýmörgum valáföngum í Kvennaskólanum er frumkvöðlafræði þar sem nemendur taka þátt í fyrirtækjasmiðju þar sem þeir stofna og reka eigið fyrirtæki. Þátttakendur fjármagna stofnun fyrirtækis með sölu hlutabréfa, ráða í stöðugildi og búa til ítarlega viðskiptaáætlun sem er hrint í framkvæmd og taka þátt í árlegri vörusýningu á vegum Ungra frumkvöðla ásamt nemendum úr fjölda annarra framhaldsskóla. Fyrirtækið er að lokum gert upp með ársreikningi og skýrslu í lok tímabilsins. Dómnefnd á vegum UF fer yfir og metur fyrirtækin og veitir verðlaun. Eitt fyrirtæki er svo valið til þátttöku í Evrópukeppni ungra frumkvöðla.

Mörg hundruð ungmenni í um tuttugu framhaldsskólum hafa verið að undirbúa og hanna vörur sem til stóð að selja á vörumessu í Smáralind nú í apríl. Þrátt fyrir að búið sé að slá vörumessuna af verða frumkvöðlarnir að ljúka verkinu og selja þær vörur sem búið er að hanna og framleiða. Margir hyggja á sölu í gegnum netsíður, facebook og instagram verða vettvangur sölunnar að þessu sinni.

Hér í Kvennó eru níu hópar að leggja lokahönd á skýrslur um starfsemina sem  verða sendar í keppnina og sala á vörum er í fullum gangi. Meðal þess sem er á boðstólum eru kerti í hörpuskeljum, segulmagnaðar lyklakippur, líkamsræktarstöng, fantasí-töskur úr teiknimyndablöðum að ógleymdu 2020 Fjölskylduspilinu þar sem keppt er um að safna aðalpersónum í atburðum síðasta árs, t.d. þríeykinu, stjórnmálafólki, tónlistafólki o.fl. Á facebook-síðu Kvennaskólans má finna ljósmyndir af verkefnunum. 

Gangi ykkur sem allra best í keppninni og með söluvörurnar kæru frumkvöðlar!

Hér má finna hlekki á þau verkefni sem eru með kynningarefni um vörurnar á samfélagsmiðlum: 
Amor með fantasítöskur úr gömlum teiknimyndablöðum: https://www.instagram.com/fantasitoskur/
Skellys með kerti í hörpuskeljum: https://www.instagram.com/skellysofficial/
AKE-kerti, endurunnin kerti í endurunnum krukkum: https://www.instagram.com/ake.kerti/
Glóðey með kerti í kókosskeljum (vegan): https://www.instagram.com/glodey_kerti/
Ísdecor með steyptar skálar: https://www.facebook.com/isdecor.is
Glens með 2020 spilið: https://www.facebook.com/Glens.spil
Kipp með segullyklakippur úr endurunnum málmi: https://www.facebook.com/Kipplyklakippur
Stic með upphífingarstangir: https://www.vorumessan.is/markadstorg/10
Icego með söl: https://www.vorumessan.is/markadstorg/5