Frönskukeppni framhaldsskólanna

Árleg frönskukeppni framhaldsskólanema fór fram nú á vormánuðum. Keppnin er samstarfsverkefni Félags frönskukennara á Íslandi, Franska sendiráðsins og Alliance française í Reykjavík. Þemað í ár var "Créez un conte" (Semjið ævintýri) og máttu nemendur velja hvort þeir gerðu sína útgáfu af þekktu ævintýri eða sömdu sögu frá grunni. Þrír skólar sendu inn samtals átta myndbönd sem dómnefnd skoðaði gaumgæfilega. Í dómnefndinni í ár sátu Graham Paul, sendiherra Frakklands á Íslandi, Jean-Francois Rochard, framkvæmdastjóri Alliance française og Arndís Hrönn Egilsdóttir, leikkona.

Laugardaginn 6. júní var verðlaunahöfum boðið til móttöku í Alliance française þar sem sigurmyndböndin voru sýnd og verðlaun afhent. Fallegt frumsamið ævintýri frá Menntaskólanum í Reykjavík lenti í fyrsta sæti en Kvennaskólinn getur verið stoltur af nemendum sínum sem lentu í 2.-3. sæti ásamt því að eitt myndband til viðbótar fékk það sem Frakkar kalla "mention spéciale du jury", aukaverðlaun fyrir fallega útgáfu á viðkomandi ævintýri.

Í öðru sæti lenti myndband Andreu Margrétar Guðmundsdóttur og Elísu Aðalheiðar Eyvindsdóttur í 2H, "Pauline toute seule dans le monde", útgáfa þeirra á hinni þekktu sögu Jens Sigsgaard "Palli var einn í heiminum" (https://www.youtube.com/watch?v=4aItyUG0zFs&feature=youtu.be).

Í þriðja sæti var útgáfa Daniellu Anands, Elísu Sveinsdóttur og Steinunnar Óskar Sigurðardóttur í 2H á ævinýtrinu um geiturnar þrjár, "Les trois biquettes" (https://youtu.be/yLHtYA9Jv-k).

Aukaverðlaunin hlutu Guðríður Ósk Þórisdóttir og Matthew Timothy Lewis úr 2H ásamt Jasmín Fortes Traustadóttur og Lovísu Ingu Eyjólfsdóttur úr 3NF fyrir túlkun sína á ævintýri H.C. Andersen um "Litlu stúlkuna með eldspýturnar", "La petite fille aux allumettes" (https://youtu.be/4K5oKw-L4eM).

 

Meðfylgjandi er mynd af þeim verðlaunahöfum sem komust í móttökuna á laugardaginn ásamt dómnefndinni (Sophie Delporte frá sendiráðinu hljóp í skarðið fyrir sendiherrann).