Bekkurinn sem safnaði mestu fékk pizzuveislu


Síðastliðinn föstudag veitti skólinn viðurkenningu til bekksins sem safnaði mestu á Góðgerðardegi skólans. Það var 1FÞ sem fékk pizzaveislu fyrir vel unnið verkefni en dæmt var út frá söfnunarfé, framkvæmd og þátttöku nemenda í hverjum bekk fyrir sig. Markmið dagsins var að safna fyrir góðgerðarfélag og stuðla í leiðinni að skemmtilegri samveru og hópefli í hverjum bekk fyrir sig. Hver árgangur safnaði áheitum fyrir “sitt” félag og var keppnin bæði milli bekkja og árganga. Að þessu sinni voru valin þrjú góðgerðaverkefni sem starfa í þágu ungs fólks á Íslandi: Bergið Headspace (1. bekkur), Sjúk ást (2. bekkur) og Hinsegin félagsmiðstöðin (3. bekkur).

Bekkirnir ákváðu sjálfir hvernig áheitasöfnunin færi fram. Verkefnin voru mjög fjölbreytt og mörg þeirra innihéldu hreyfingu og samveru. Margt skemmtilegt var brallað, til dæmis fjallganga á Úlfarsfell í handjárnum, hópsöngur og dans fyrir gesti miðborgarinnar, spinning tími, langir göngutúrar, tombóla með happahjóli, spila-maraþon og armbeygjukeppni. Bekkurinn sem vann keppnina, safnaði eitt þúsund "fimmum" frá fólki í miðborginni, týndi rusl og tók 21 km langan göngutúr. Þau söfnuðu tæplega 150 þúsund krónum en samanlagt tókst nemendum í skólanum að safna yfir 700 þúsund krónum.

Góðgerðardagurinn er liður í Tjarnardögum Kvennaskólans sem hafa verið haldnir síðustu 40 ár. Þetta eru þemadagar þar sem hlé er gert á kennslu og nemendur velja sér ýmis styttri námskeið, kynningar og heimsóknir út í bæ. Dagarnir enda ávallt á glæsilegri árshátíð sem að þessu sinni var haldin í Gullhömrum.

Starfsfólk skólans nýtti Tjarnardagana til hins ýtrasta. Þau komu að skipulagi og höfðu umsjón með ýmiss konar dagskrá fyrir nemendur, funduðu um framtíðarsýn og lykiláherslur í skólastarfinu og sinntu námsmati. Myndbönd og ljósmyndir má finna í highlights (Tjarnardagar ‘24) á instagram síðu skólans (kvennaskolinnreykjavik).

Ásdís Arnalds aðstoðarskólameistari afhendir
Ragnhildi Elvu Kjartansdóttur, bekkjarfulltrúa 1FÞ,
gjafabréf fyrir pizzuveislu.