Verðlaunahafi úr Kvennaskólanum

Íslensku barnabókaverðlaunin í ár hlaut fyrrum nemandi Kvennaskólans, Rut Guðnadóttir, en hún útskrifaðist frá skólanum vorið 2013. Verðlaunin hlaut hún fyrir bók sína Vampírur, vesen og annað tilfallandi. Bókin er hennar fyrsta skáldsaga sem gerir afrekið enn magnaðra. Við slógum á þráðinn og óskuðum Rut til hamingju og fengum hana til að rifja upp árin í skólanum.

Skólagangan púslaði sjálfsmyndinni saman
„Þegar ég hugsa til Kvennó sé ég fyrir mér viðkvæm og vandræðaleg ár sem voru í senn yndisleg og afar erfið. Kvennó var dásamlegur skóli og fólkið þar, bæði nemendur og kennarar, hjálpaði mér mikið að þroskast og kynnast sjálfri mér betur”. Rut segist hafa komið með frekar brostna sjálfsmynd inn í skólann en segir staðfastlega að árin í Kvennó hafi hjálpað heilan helling við að púsla henni saman aftur. „Mér fannst námið í Kvennó rosalega spennandi og þar eru margir af mínum bestu kennurum, til dæmis þær Ásdís Arnalds sem kenndi mér íslensku, Þórdís enskukennari, Björk sem kenndi mér félagsfræði og kynjafræði og svo frönskukennararnir Jóhanna og Margrét”.

Mikilvægt slaka á einkunnafíkn
Rut hefur alltaf átt auðvelt með nám og segir að um tíma hafi það verið eina mælistikan á sjálfsvirði hennar. „Ég veit í dag að einkunnir segja ekki alla söguna og ættu bara að vera brot af því hvernig ég lít á mig sjálfa. Menntaskólar mennta mann ekki bara bóklega heldur undirbúa okkur fyrir lífið í stærra samhenginu, að njóta lífsins og geta skapað sér framtíð sem er hamingjusöm og heilbrigð - þar er jafnvægi lykilatriði, að leggja sig fram við heimanám og fylgjast með í tímum ... en líka eignast vini og þora að bjóða þeim sem maður er skotinn í á deit”. Hún segist hafa tekið þátt í leikfélaginu og kórnum en ef hún myndi breyta einhverju þá væri það helst að „taka enn meiri þátt í félagslífinu, fara í fleiri partý og á fleiri böll og reyna að kynnast samnemendum mínum betur og slaka kannski örlítið á í einkunnafíkninni”.

Safnar háskólagráðum
Strax eftir stúdentspróf hélt Rut í Háskóla Íslands. Hún lauk BS námi í sálfræði með ritlist sem aukagrein. Svo lauk hún mastersprófi í ritlist  og BA gráðu í islensku og næsta vor stefnir hún svo á að ljúka viðbótardiplómu í menntun  framhaldsskólakennara með íslensku sem kjörgrein. Hún segir drauminn vera að halda áfram að skrifa. „Ásamt því að skrifa fleiri bækur stefni ég á að sækja um kennslustöður í Kvennó því þar myndi ég svo sannarlega vilja kenna. Mér var sagt að kennararnir séu bæði með bóka- og prjónaklúbb og þó ég sé bara 26 ára þá er ég gömul sál og líst afskaplega vel á hvort tveggja! “

Takk fyrir spjallið elsku Rut, þú ert svo sannarlega flott fyrirmynd fyrir núverandi nemendur skólans. Hjartans hamingjuóskir frá okkur öllum í Kvennó.