Árleg myndbandasamkeppni nemenda sem leggja stund á frönsku var haldin 27. mars síðastliðinn. Fyrir keppninni standa Félag frönskukennara á Íslandi, sendiráð Frakklands á Íslandi og Alliance française í Reykjavík, en afhending verðlauna fór einmitt fram í húsakynnum Alliance française við Tryggvagötu.
Þema keppninnar í ár var: Votre monde de demain : votre vision du monde du futur (Heimur ykkar á morgun: ykkar sýn á heim framtíðarinnar). Fjórir framhaldsskólar tóku þátt að þessu sinni og var Kvennaskólinn á meðal þeirra.
Framlag skólans var myndband gert af Guðrúnu Helgu Árnadóttur, Oliwia Slodkowska og Píu Maríu Aradóttur sem allar eru í 2. FB. Þær gerðu sér lítið fyrir og höfnuðu í 2. sæti keppninnar. Dómnefndin hældi þeim m.a. fyrir frumleg efnistök, góðan boðskap og gott vald á franskri tungu. Í myndbandinu velta höfundar fyrir sér kostum og göllum gervigreindar og leggja áherslu á mikilvægi náttúruverndar og mannlegra samskipta. Annars er sjón sögu ríkari!
Hlekkur á myndbandið:
https://youtu.be/Sgsd97kPv-I
Skólinn óskar þeim stöllum innilega til hamingju með góðan árangur í keppninni!
