Skólasetning: Nýnemakynning og fræðsludagskrá

 

Það var mikil gleði hjá okkur í Kvennaskólanum í dag þegar nýr skólameistari, Kolfinna Jóhannesdóttir setti skólann með formlegum hætti. Það má segja að gleðin hafi verið tvöföld því fyrir hádegi mættu nýnemar en eftir hádegi fengum við til okkar eldri nemendur sem eiga sæti í nefndum nemendafélagsins

Skólameistari ávarpaði nýnema og veitti þeim góð heilræði fyrir nýtt skólastig. Hún ræddi meðal annars mikilvægi þess að hafa gaman í skólanum og að ekki mætti leyfa stressi að taka yfir né hræðast mistök. Hún lagði einnig ríka áherslu á að allir hefðu tíma til að huga að góðri heilsu, enda mataræði, svefni og hreyfing algjört lykilatriði hvað varðar farsæla skólagöngu.

Hver og einn bekkur hitti svo sinn umsjónarkennara og fékk kynningu á öllu því helsta sem tengist skólastarfinu. Að því loknu fóru nemendur í Keðjunni, nemendafélagi skólans, með bekkina í kynnisferð um skólann og voru með hópefli sem endaði með grillveislu í porti Miðbæjarskólans. Skemmtileg myndbönd frá hópeflinu má sjá undir "story" á instagram miðli skólans.

Eftir hádegi tók við fræðsludagskrá fyrir eldri nemendur sem kosnir voru í nefndir og ráð á vegum nemendafélagsins síðastliðið vor. Fjallað var um ýmislegt sem kemur að stefnu skólans í hinum ýmsu málaflokkum, svo sem forvarnir, jafnréttismál og persónuvernd. Að lokum var síðan sest í hópa og rætt um gagnsemi fræðslunnar fyrir hverja nefnd fyrir sig og niðurstöður sendar til félagsmálafulltrúa skólans. 

Á morgun, föstudaginn 19. ágúst, hefst svo kennsla fyrir alla nemendur skólans. Við biðjum ykkur öll að vera dugleg að skoða stundaskrána í Innu fyrstu dagana því stundum þarf að breyta stundaskrá/ kennslustofum með stuttum fyrirvara.

Að lokum viljum við minna eldri nemendur á að töflubreytingum lýkur mánudaginn 22. ágúst. Snúið ykkur til námsstjóra og aðstoðarskólameistara ef einhverjar breytingar þarf að gera. Upplýsingar um valáfanga í boði má sjá undir "Aðstoð" í Innu og eins sjáið þið þar hvort orðið er fullt í einhverja hópa.