Samstarf við franskan skóla á næsta skólaári

 
Frönskudeild skólans ákvað að stofna til samstarfs við franskan menntaskóla, Institution Robin, í borginni Vienne, rétt suður af Lyon. Sótt var um styrk til verkefnisins á vegum Erasmus-áætlunarinnar. Stefnt er að nemendaskiptum á vorönn 2023.
 
Svo skemmtilega vildi til að franski skólinn hafði þegar skipulagt Íslandsheimsókn í ár og kom til Reykjavíkur og dvaldi hér í nokkra daga þegar páskaleyfið okkar stóð yfir. Hópurinn heimsótti Kvennaskólann og var samstarfið innsiglað með handabandi aðstoðarskólameistara franska skólans, Didier Rethouze og Hjalta Jóns, skólameistara Kvennaskólans.
 
Hópurinn fékk að rölta um skólann og nokkrir nemendur okkar í 2. bekk komu og hittu hópinn. Frökkunum þótti mjög gaman að sjá íslenskan skóla og allar aðstæður hér, þó vissulega hefði verið skemmtilegra að hafa fulla kennslu í gangi. Íslensku nemendurnir voru góðir leiðsögumenn og fór vel á með öllum, bæði á ensku og frönsku. Í framhaldinu rölti franski hópurinn með frönskukennurum Kvennaskólans og íslensku nemendunum í tvö söfn í miðbænum og áttu góða stund saman.

Við hlökkum mikið til spennandi samstarfs á næsta ári.
 
    
Frá vinstri: Ásdís Arnalds aðstoðarskólameistari, Didier Rethouze, Hjalti Jón Sveinsson skólameistari,
Jóhanna Björk Guðjónsdóttir frönskukennari, Margrét Helga Hjartardóttir frönskukennari og Isabelle Martel.