Samstarf við franskan menntaskóla

 

Eins og fram kom í frétt hér á heimasíðunni 24. mars sl. hefur frönskudeild Kvennaskólans verið í samstarfi við menntaskóla í Vienne í Frakklandi, Institution Robin. Verkefnið fékk styrk frá Erasmus+ áætluninni og rík áhersla lögð á samskipti og tengsl ungs fólks í Evrópu um leið og unnið var með ákveðin þemu, svo sem orkumál, jarðfræði, menningu og sögu.

Franski hópurinn, 26 nemendur og 3 kennarar, kom í heimsókn til Íslands og dvaldi í viku, 19.-26. apríl. Frönsku nemendurnir dvöldu á heimilum þeirra nemenda Kvennaskólans sem tóku þátt í verkefninu, líkt og fyrirkomulagið var í Frakklandi. Hópurinn byrjaði á að fara allur saman í dagsferð, í Hellisheiðarvirkjun og Reykjadal, þar sem mörg prófuðu að baða sig í heita læknum. Einnig fengu Frakkarnir kynningu á Kvennaskólanum, skoðuðu húsakost og fengu að sitja í kennslustundum. Í framhaldinu fóru frönsku gestirnir í fleiri dagsferðir, til Vestmannaeyja, á Reykjanes og gullna hringinn. Um helgina nutu þau hins vegar gestrisni heimafólks og fengu að upplifa ýmislegt skemmtilegt, sundlaugar, baðlón, norðurljós, ísbíltúra og sumarbústaðaferðir.

Varla þarf að fjölyrða um hversu mikil reynsla og upplifun þetta verkefni hefur verið fyrir nemendur beggja skóla. Þau töluðu og skrifuðu um kosti og galla skóla sinna, ólíka siði og hefðir á heimilum og voru sammála um að þetta hafi verið mjög lærdómsríkt. Má t.d. nefna að íslensku nemendurnir upplifðu öll í Frakklandi að heimilisfólk fór mjög sparlega með rafmagn og gætti að því að slökkva ljós í ónotuðum rýmum, eitthvað sem Íslendingar leiða sjaldan hugann að. Einnig var þeim tíðrætt um ólíka matarmenningu. Frönsku ungmennin upplifðu hér á landi meira frelsi, rýmri útivistartíma og afslappaðri samskipti nemenda og kennara.