Peysufatadagur 5. apríl

 

Næstkomandi föstudag verður peysufatadagurinn haldinn hátíðlegur. Við hvetjum fjölskyldur nemenda, vini og velunnara skólans til að gleðjast með okkur í miðborginni þennan dag. 

Dagskráin er eftirfarandi: 

  • 10:00 Ingólfstorg
  • 11:00 Miðbæjarskóli
  • 12:40 Hjúkrunarheimilið Grund (fyrir aftan bygginguna)
  • 13:50 Þjóðminjasafnið 

Að lokinni dagskrá í Þjóðminjasafninu þiggur hópurinn kærkomna hressingu í boði safnsins. Formlegri dagskrá lýkur um kl. 14:30 en nemendum er öllum velkomið að staldra við og skoða safnið.

 

Peysufatadagurinn – sagan í stuttu máli
Þegar Kvennaskólinn var stofnaður árið 1874 var venjan að nemendur væru í íslenskum búningi í skólanum. Með tímanum breyttist það eins og annað og þegar kom fram um 1920 gengu aðeins sumar stúlknanna í slíkum búningi í skólanum. Vorið 1921 ákváðu nemendur skólans að koma á peysufötum til skólans til hátíðabrigða og gera sér dagamun á eftir. Síðan þá hefur peysufatadagurinn jafnan verið endurtekinn einu sinni á skólaári með vaxandi viðhöfn. Þessi hefð er því orðin rúmlega hundrað ára gömul og þykir ómissandi liður í skólastarfinu.