Nýr aðstoðarskólameistari

 

Ásdís Arnalds var á dögunum ráðin nýr aðstoðarskólameistari Kvennaskólans í Reykjavík. Hún tekur við starfinu af Oddnýju Hafberg sem kveður nú skólann eftir fjörutíu ára samfylgd, fyrst sem efnafræðikennari og sem aðstoðarskólameistari frá árinu 1997. Þá starfaði hún sem skólameistari skólaárið 2006-2007. Á þessum árum hefur skólinn gengið í gegnum miklar breytingar og ýmsa þróunarvinnu. Þar hefur Oddný verið í algjöru lykilhlutverki með sínu frumkvæði, skipulagshæfni og framtíðarsýn. Við viljum þakka Oddnýju fyrir ómetanlegt starf í þágu skólans og samgleðjumst henni innilega á þessum tímamótum.

Ásdís hefur verið íslenskukennari við Kvennaskólann undanfarin nítján ár og hefur samhliða þeim störfum sinnt ýmsum trúnaðarstörfum innan skólans. Hún hefur undanfarin ár verið fagstjóri í íslensku og þar áður var hún bæði brautarstjóri hugvísindabrautar og félagsmálastjóri. Ásdís hefur einnig gegnt formennsku í kennarafélagi skólans og tekið þátt í fjöldamörgum samstarfsverkefnum, bæði erlendis og hér heima. Við bjóðum Ásdísi hjartanlega velkomna í starfið og hlökkum til samstarfsins.