Nemendur skólans hrepptu öll verðlaunasætin í frönskukeppni

Verðlaunahafar ásamt frönskukennurunum Margréti Helgu Hjartardóttur (lengst til vinstri) og Jóhönnu …
Verðlaunahafar ásamt frönskukennurunum Margréti Helgu Hjartardóttur (lengst til vinstri) og Jóhönnu Björk Guðjónsdóttur (lengst til hægri).
 
Árleg frönskukeppni grunn- og framhaldsskóla var haldin á degi franskrar tungu, laugardaginn 20. mars síðastliðinn. Keppnin fór fram í húsakynnum Alliance française í Reykjavík. Keppnin er myndbandasamkeppni þar sem nemendur eiga að senda inn myndband út frá einhverju þema. Í ár var keppnin helguð myndasögum, enda er rík og löng hefði fyrir myndasögugerð í hinum frönskumælandi heimi. Nægir að nefna hetjur á borð við Ástrík og Steinrík, Tinna, Lukku Láka, Viggó viðutan og Strumpana því til staðfestingar.

Nemendur Kvennaskólans gerðu sér lítið fyrir og hrepptu öll verðlaunasæti framhaldsskólakeppninnar í ár! Í fyrsta sæti var Lea Schneider í 2H með hugljúfa sögu um ugluna Lilou sem sér stjörnuhrap og hittir á óskastund. Í öðru sæti höfnuðu Alfa Magdalena B Jórunnardóttir, Björk Rósinkrans Bing og Oddur Snorrason í 2H með bráðskemmtilega mynd um stúlku sem lendir í þekktum myndasöguheimi. Í þriðja sæti var Ásta Sesselja Kjartansdóttir 2NA með fallegt ævintýri um blómin hennar Idu sem eiga það til að taka sporið.
 
Hér má sjá sigurmyndbönd þessara hæfileikaríku nemenda sem við óskum innilega til hamingju með glæsilegan árangur í keppninni!
Alfa, Björk og Oddur: Les aventures d'Eloise