Nemendur á Njáluslóðum

 

Fimmtudaginn 28. apríl fóru rúmlega hundrað nemendur á öðru ári í langþráða ferð á Njáluslóðir ásamt kennurum sínum, Elínborgu, Elínrósu og Sverri. Farið var inn að sögustaðnum Keldur í Rangárhreppi en þar er m.a. eini stóri torfbærinn sem hefur varðveist á Suðurlandi. Þaðan var haldið að Gunnarssteini sem er skammt frá Keldum. Þar háðu Gunnar og bræður hans blóðugan bardaga við svokallaða hestaatsmenn og liðsmenn þeirra.

Frá Gunnarssteini var haldið að Sögusetrinu á Hvolsvelli þar sem Njálusýningin var skoðuð auk þess sem öflugir kokkar steiktu gómsæta hamborgara og franskar ofan í hópinn. Síðan var haldið inn Fljótshlíðina og að Hlíðarenda þar sem kappinn Gunnar Hámundarson átti bú ásamt skörungnum Hallgerði langbrók. Sannarlega er hlíðin fögur, eins og Gunnar sagði þegar hann ákvað að fara ekki utan heldur snúa við. Það átti svo eftir að kosta hann lífið. Frá Hlíðarenda var haldið áfram inn Fljótshlíðina að gullfallegum fossi sem heitir Gluggafoss. Frábær endir á góðri ferð eins og myndirnar bera með sér.