Mikil gleði við útskrift í Háskólabíó

 

Í dag voru alls 187 nemendur brautskráðir frá Kvennaskólanum Í Reykjavík. Athöfnin fór fram í Háskólabíó og var í senn hátíðleg og skemmtileg. Skólameistari skólans, Hjalti Jón Sveinsson, stýrði athöfninni og Sólveig Einarsdóttir flutti kveðjuræðu til nýstúdenta frá starfsfólki skólans. Fráfarandi forseti Keðjunnar, Kolbeinn Freyr Björnsson, flutti ávarp nýstúdents og fyrrum skólameistari Kvennaskólans, Ingibjörg Guðmundsdóttir flutti ræðu.

Kór skólans tók lagið, nýstúdent Ásdís Magdalena Þorvaldsdóttir lék á píanó og einnig var sýnd samantekt frá leikfélaginu Fúríu með atriðum úr söngleiknum Frost.

Mikil gleði ríkti með að hægt væri að útskrifa allan hópinn saman, enda hefur þessi útskriftarhópur búið við miklar fjöldatakmarkanir á menntaskólagöngunni vegna Covid-19 faraldursins. Helmingur skólagöngunnar hefur verið í faraldrinum og á þeim tíma hefur ekki mátt halda skólaball né aðrar samkomur í skólanum. Til dæmis þurfti að fresta peysufatadegi tvisvar og aflýsa eplaballi, tjarnardögum og árshátíð á lokaárinu þeirra. Þessi árgangur hefur sýnt ótrúlegt æðruleysi og þrautseigju á sínum menntaskólaárum sem alla jafna er lýst sem bestu árum lífsins.

Dúx skólans að þessu sinni var Lilja Sóley Gissurardóttir með meðaleinkunnina 9,48. Verðlaunin koma úr Minningarsjóði frú Þóru Melsteð, stofnanda Kvennaskólans í Reykjavík.

Áróra Friðriksdóttir hlaut stúdentspennann 2021 sem eru verðlaun fyrir besta lokaverkefni skólaársins.

Verðlaun Háskólans í Reykjavík fyrir framúrskarandi árangur í raungreinum á stúdentsprófi hlaut Íris Ósk Óladóttir. 

Þá hlaut Elísa Sveinsdóttir Menntaverðlaun Háskóla Íslands sem veitt eru þeim nemanda sem sýnt hefur framúrskarandi árangur á stúdentsprófi auk þess að hafa náð eftirtektarverðum árangri á sviði lista eða íþrótta, átt mikilvægt framlag til skólafélaga eða skólans. 

Aðrar viðurkenningar fyrir afburðagóðan námsárangur fengu: Baldur Rökkvi Arnaldsson, Daniella Anands, Sigrún Meng Ólafardóttir, Helga Björg Þorsteinsdóttir, Emil Grettir Ólafsson, Helena Sól Conger, Unnur Theodóra Indriðadóttir, Elísa Sveinsdóttir, Bjarki Már Sigmarsson, Hrafnhildur Líf Jónsdóttir, Bryndís Gunnarsdóttir, Hrafnhildur Vala Valsdóttir, Björk Pálmadóttir, Sunna Dís Örvarsdóttir og Nanna Eggertsdóttir.

Viðurkenningu fyrir þátttöku í stjórn Nemendafélagsins Keðjunnar fengu Berghildur Björk Reynisdóttir, Einar Páll Pálsson, Elísa Sveinsdóttir, Hlynur Bjarki Karel Johnsson, Kolbeinn Freyr Björnsson, Símon Tómas Ragnarsson og Viktor Ingi Birgisson.

 

Við óskum öllum nýstúdentunum og aðstandendum þeirra innilega til hamingju með áfangann.

Upptöku frá athöfninni má finna hér: https://beint.is/streymi/kvenno2021