Margir Kvenskælingar í hópi styrkþega Afreks- og hvatningarsjóðs HÍ

Frá vinstri: Jón Atli Benediktsson, Guðríður Ósk, Berglind, Sigrún Meng, Áróra og Elín Kolfinna.
Frá vinstri: Jón Atli Benediktsson, Guðríður Ósk, Berglind, Sigrún Meng, Áróra og Elín Kolfinna.

 

Fimm útskrifaðir Kvenskælingar voru í hópi þeirra 37 nýnema sem fengu styrk úr Afreks- og hvatningarsjóði Háskóla Íslands í gær. Hver styrkur nemur 375 þúsund krónum og eru þeir veittir nýnemum sem náð hafa framúrskarandi árangri í námi til stúdentsprófs og jafnframt látið til sín taka á öðrum sviðum, svo sem í félagsstörfum í framhaldsskóla eða listum og íþróttum. Í hópi styrkþega eru einnig nemendur sem hafa sýnt fádæma seiglu og þrautseigju og hafa, þrátt fyrir afar erfiðar aðstæður, staðið sig afar vel í námi. Hver styrkur nemur 375 þúsund krónum.

Við óskum stelpunum “okkar” innilega til hamingju og birtum hér að neðan upplýsingar sem Háskóli Íslands tók saman:

Áróra Friðriksdóttir útskrifaðist frá Kvennaskólanum í Reykjavík í vor og hlaut við það tilefni Stúdentspennann fyrir besta lokaverkefni skólaársins. Hún hefur lagt stund á tónlistarnám frá sex ára aldri og tekið virkan þátt í félagslífi Kvennaskólans, m.a. sem ritstýra skólablaðsins. Þá hefur Áróra verið í Gettu betur liði skólans undanfarin tvö ár og var fyrirliði þess á liðnum vetri þegar liðið komst alla leið í úrslit keppninnar. Áróra hefur hafið nám í sálfræði.

Berglind Bjarnadóttir var dúx Kvennaskólans í Reykjavík í fyrravor en hún brautskráðist með hæstu meðaleinkunn sem gefin hefur verið í sögu skólans. Hún brautskráðist enn fremur af almennri braut í Menntaskólanum í tónlist í vor með áherslu á klassíska tónlist. Berglind, sem leikur á fagott, hefur verið í fjölmörgum hljómsveitum, þar á meðal ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Þá æfði hún sund um árabil og státar af fjölmörgum verðlaunum í þeirri grein. Berglind var tvö ár í Gettu betur liði Kvennaskólans í Reykjavík og sigraði í keppninni annað árið. Berglind hefur nám í lífefna- og sameindalíffræði.

Elín Kolfinna Árnadóttir útskrifaðist frá Kvennaskólanum í Reykjavík í fyrra. Á meðan á námi hennar stóð tók hún bæði þátt í jafnréttis- og kórstarfi skólans ásamt því að aðstoða aðra nemendur með nám. Hún æfði fótbolta um árabil en hefur á síðustu árum æft og keppt í hjólreiðum og er í landsliðsúrvali undir 23 ára landsliðsins í greininni. Hún hefur einnig mikinn áhuga á mat og vinnur að matreiðslubók þar sem áhersla er á bólguminnkandi mataræði. Elín Kolfinna hefur hafið nám í hjúkrunarfræði.

Guðríður Ósk Þórisdóttir brautskráðist frá Kvennaskólanum í Reykjavík í vor. Hún hefur m.a. lokið miðprófi í píanóleik og tónfræðagreinum og hefur lengi langað að vera kennari. Hún hefur því innritað sig í nám í grunnskólakennslu með áherslu á stærðfræði.

Sigrún Meng Ólafardóttir lauk stúdentsprófi frá Kvennaskólanum í Reykjavík í vor og fékk viðurkenningu fyrir afburðagóðan námsárangur. Hún hefur lagt stund á dans hjá Danslistaskóla JSB í yfir áratug og lét mikið að sér kveða í félagslífi Kvenskælinga. Sigrún hefur hafið nám í lífeindafræði.