Langþráðar nýnemaferðir!

 

Það var mikið húllumhæ í vikunni þegar okkar árlegu nýnemaferðirnar voru farnar. Að þessu sinni voru þær reyndar ekki einungis fyrir nýnema því ákveðið var að 2. árs nemar fengju líka ferðalag þar sem ekkert varð af þeirra nýnemaferðum í fyrra vegna Covid-19 faraldursins. Framhaldsskólanemarnir okkar hafa mátt þola skrýtið skólahald og lítið sem ekkert félagslíf innan skólans. Það hafa engin böll verið haldin og engin ferðalög verið farin og því voru þessar ferðir með eindæmum mikilvægar.

Ferðirnar tókust frábærlega og var mikil gleði á skógræktarsvæðinu Garðalundi á Akranesi þar sem fulltrúar nemendafélagsins stjórnuðu leikjum og hópefli af miklum myndarskap. Nokkrir kennarar og skólameistari fóru með í ferðirnar og eins fengum við frábæra aðstoð frá Önnu Margréti Tómasdóttur og Jorgen Nilsson frá Skátafélagi Akraness. Allir voru sammála um að unga fólkið okkar hafi verið sér og skólanum til mikils sóma. Myndirnar tala sínu máli!