Langþráð Parísarferð að baki

Svokallaður Parísaráfangi hefur verið í boði fyrir frönskunemendur skólans á 3. ári í mörg ár og notið töluverðra vinsælda. Í áfanganum fræðast nemendur um heimsborgina París og vinna ýmis verkefni. Menningar- og fræðsluferð til Parísar er hápunktur áfangans og hefur hún yfirleitt verið farin eftir 6-7 kennsluvikur. Í ár brá svo við að þremur dögum fyrir brottför var flugfélagið Play lýst gjaldþrota og góð ráð voru dýr. Sem betur fer tókst að skipuleggja ferðina síðar á önninni með flugfélaginu Transavia og dvaldi vaskur hópur 24 nemenda ásamt tveimur frönskukennurum skólans frá 6.-10. nóvember í borg ljósanna. Gist var í Mýrinni, le Marais, eins og mörg undanfarin ár, en það er fallegt, sjarmerandi og einstaklega vel staðsett hverfi í hjarta borgarinnar. Þessir dýrmætu dagar voru nýttir til hins ítrasta, hópurinn komst yfir ótrúlega mikið á stuttum tíma. Fyrsta morguninn var farið að Sigurboganum og gengið niður hluta af breiðgötunni Champs-Elysées. Því næst var brunað í Louvre safnið þar sem nemendur kíktu á Monu Lísu (eða la Joconde eins og hún er kölluð á frönsku) áður en þeir fóru í skemmtilegan ratleik á safninu í litlum hópum. Næst á dagskrá var hinn eini og sanni Eiffel turn. Daginn eftir gekk hópurinn fram hjá Notre-Dame og dreif sig í beinu framhaldi í siglingu á Signu þar sem mörg þekkt kennileiti borgarinnar komu við sögu. Því næst fór hópurinn í göngu um latínuhverfið á vinstri bakkanum og sá m.a. háskólann Sorbonne, grafhýsið Panthéon og stærstu mosku Parísarborgar. Síðasta heila daginn gekk hópurinn saman um hverfið sitt, Mýrina, áður en hann hélt upp á Montmartre hæðina í fínan göngutúr. Um kvöldið snæddi hópurinn saman kvöldverð í grennd við gistiheimilið. Á brottfarardeginum rifu nokkrir nemendur sig eldsnemma á fætur og náðu að fara í morgunmessu í hinni undurfögru og nýuppgerðu Notre-Dame. Það er stund sem þau gleyma seint.

Hluti af dagskrá hópsins fólst í því að nemendur fóru saman í smærri hópum í ólíkar áttir og skoðuðu nokkra staði að eigin vali. Þar áttu þau að kynna sér staðhætti og viða að sér efni, taka myndir og myndbönd. Þau áttu líka að taka viðtöl á frönsku við fólk á stöðunum svo töluvert reyndi á frönskukunnáttu þeirra. Efnisöflun gekk vel og nemendur sáu og upplifðu ótalmargt nýtt og spennandi sem þau unnu úr eftir heimkomu. Sem dæmi um viðfangsefni má nefna bókasafn, óperuhús, listasöfn, kirkjugarð og almenningsgarða. Afraksturinn fólst í stuttmyndum eða glærusýningum sem eru ekki bara skilaverkefni heldur einnig minningar nemenda um skemmtilega ferð.

Ferðin gekk mjög vel, veðrið var almennt mjög gott og hegðun nemenda öllum til sóma. Óhætt er að segja að nemendur hafi verið mjög ánægðir við heimkomu þó þau væru svolítið lúin í fótunum eftir allt borgarþrammið. Kannski nutu þau alls enn betur eftir að hafa orðið fyrir því áfalli í byrjun október að sjá jafnvel fram á að ekkert yrði úr ferðinni í kjölfar fyrrnefnds gjaldþrots. Máltækið góða, sem er samhljóða á íslensku og frönsku, sannaðist hér svo um munar: Allt er gott sem endar vel – Tout est bien qui finit bien.