Kvennó - teymið: Heiðrún Vala, Nína, Ragna og Heiðrún
Í fyrsta skipti í yfir áratug komu framhaldsskólanemendur saman til að taka þátt í
Model United Nations (Model UN), líkani af starfi Sameinuðu þjóðanna, og gegndu þar lykilhlutverki nemendur úr Kvennaskólanum í Reykjavík.
Þann 1. nóvember síðastliðinn hittust rúmlega 25 framhaldsskólanemendur úr Kvennaskólanum í Reykjavík, Fjölbrautaskólanum við Ármúla, Fjölbrautaskólanum í Breiðholti, Menntaskólanum við Hamrahlíð og Verzlunarskóla Íslands í húsnæði Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Markmið þeirra var að setja upp öryggisráð Sameinuðu þjóðanna, þar sem þau tóku að sér hlutverk mismunandi ríkja og unnu saman að því að semja og samþykkja ályktun um fæðuöryggi í Súdan í ljósi átaka og loftslagsbreytinga. Verkefnið tókst einstaklega vel og eftir ítarlegar umræður og samningaviðræður náði hópurinn að samþykkja ályktun í nafni öryggisráðsins. Þetta var fyrsta Model UN-ið sem haldið hefur verið á vegum
Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi (FSÞ) í yfir áratug, og miðað við áhuga og þátttöku bendir allt til þess að verkefnið sé komið til að vera.
Nemendur Kvennaskólans í Reykjavík, þær Heiðrún Vala, Nína, Ragna og Heiðrún, komu að skipulagningu viðburðarins og skipuðu stjórn öryggisráðsins. Þær stóðu sig frábærlega í einu og öllu.
Viðburðurinn var haldinn í samstarfi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, með stuðningi Loftslagssjóðs ungs fólks í Reykjavíkurborg.