Kvennaskólinn er umhverfisvænn!

Undirbúningur fyrir föstudagsmótmæli á Austurvelli v/loftlagsmála
Undirbúningur fyrir föstudagsmótmæli á Austurvelli v/loftlagsmála

Við fengum þær góðu fréttir nýverið að Kvennaskólinn fái Grænfánann afhentan von bráðar. Grænfáninn er alþjóðleg viðurkenning sem er veitt þeim skólum sem standa sig vel í umhverfismálum og vinna að sjálfbærni. Verkefnið er stærsta umhverfismenntaverkefni í heimi og er haldið úti af samtökunum Foundation for Environmental Education.

Þetta er í þriðja sinn sem við vinnum okkur inn þessa viðurkenningu og viljum við sérstaklega hrósa Umhverfisráði skólans fyrir þeirra framlag. Á síðasta ári var unnið með tvö þemu, annars vegar neyslu og úrgang, og hins vegar loftlagsbreytingar og samgöngur. Dæmi um verkefni eru fataskiptamarkaður, myndrænar merkingar á flokkunarstöðvum, fræðsluefnisgerð og gríðargóð þátttaka í loftlagsmótmælum. Þá er líka eftirminnilegt þegar nokkrir nemendur tóku sig saman og hjóluðu í skólann og hvöttu okkur hin til að koma gangandi, hjólandi eða í strætó. 

Umhverfisfræðsla á sér líka stað innan námsgreina skólans. Allir nemendur félags- og hugvísindabrauta fá kennslu í umhverfisfræðum og nemendur á náttúruvísindabraut fá kennslu í umhverfisfræðum í gegnum önnur raungreinafög.