Kvennaskólinn býður upp á starfsbraut

Kvennaskólinn í Reykjavík býður upp á starfsbraut frá og með hausti 2023, um er að ræða fjögurra ára nám að loknum grunnskóla fyrir nemendur sem ekki geta nýtt sér almenn námstilboð framhaldsskóla en þurfa sérhæft einstaklingsmiðað nám er mætir færni þeirra og áhuga.

Nám á starfsbrautinni er einkum ætlað nemendum sem hafa notið verulegrar sérkennslu í grunnskóla, verið í sérdeild eða sérskóla.

Á brautinni fá nemendur tækifæri til að stunda nám við hæfi og viðhalda og auka þekkingu sína og færni til að takast á við viðfangsefni daglegs lífs á heimili, í vinnu, tómstundum og í frekara námi. Nám og kennsla eru skipulögð með tilliti til þess nemendahóps sem innritast á brautina á hverjum tíma. Áhersla er lögð á fjölbreytta kennsluhætti sem eru sniðnir að þörfum og getu nemenda. Námið er einstaklingsmiðað og geta áherslur og þátttaka í áföngum verið mismunandi á námstímanum.

Námið er á fyrsta þrepi, þ.e. almenn og hagnýt þekking sem miðast við stöðu hvers og eins. Möguleiki er á að nemendur taki áfanga á öðrum námsþrepum og námsbrautum, uppfylli þeir skilyrði þar um.

Nánari upplýsingar um námsbrautina, sjá hér.