Kveðja vegna starfsloka

 

Í síðustu viku var Elnu Katrínu Jónsdóttur þýskukennara þakkað fyrir störf sín við Kvennaskólann. Það eru 35 ár síðan Elna Katrín hóf að kenna við skólann. Snemma lét hún einnig að sér kveða í trúnaðarstörfum fyrir kennarahreyfinguna og þurfti því stundum að taka sér hlé frá kennslu. Hún var meðal annars formaður Hins íslenska kennarafélags frá 1993 og var varaformaður Kennarasambands Íslands frá því það var stofnað árið 2000.  Frá sama ári var hún formaður Félags framhaldsskólakennara og gegndi því embætti til ársins 2005. Elna Katrín lét af varaformennsku í Kennarasambandinu árið 2011 en gegndi áfram störfum fyrir sambandið og sinnti kennslu við Kvennaskólann. Elna Katrín hefur setið í fjölda nefnda á vegum kennara og í fjölda nefnda um menntamál á vegum ráðuneytisins og í samstarfsnefndum tengdum kjarasamningum.

Það hefur verið dýrmætt fyrir starfsfólk skólans að eiga Elnu Katrínu að með alla sína þekkingu á kjaramálum og starfsumhverfi kennara. Hún hefur verið frábær samstarfskona og sýnt mikla fagmennsku í kennarastarfinu og innra starfi skólans. Við viljum þakka henni kærlega fyrir samstarfið og óskum henni velfarnaðar í öllu því sem framtíðin ber í skauti sér.