Húsþing: Fræðsludagskrá fyrir starfsfólk

Markmið mannauðsstefnu skólans eru: Fagmennska, umhyggja, virðing og gleði.
Markmið mannauðsstefnu skólans eru: Fagmennska, umhyggja, virðing og gleði.

Síðustu ár hefur starfsfólk Kvennaskólans komið saman á svokölluðu Húsþingi tvisvar á ári þar sem fram fer starfsþróun. Oftast er dagskráin tvískipt; fræðsluerindi um mál sem eru ofarlega á baugi og málstofur þar sem starfsfólk deilir reynslu sinni.

Á húsþingi síðastliðinn föstudag ræddi Eyrún Eyþórsdóttir, lektor við Háskólann á Akureyri, um hatursorðræðu. Í fyrirlestrinum var rætt um hatursorðræðu út frá ólíkum sjónarhornum, lagalegum og fræðilegum skilgreiningum, sem og almennum skilningi á hugtakinu. Rýnt var í sögu og þróun hugtaksins og það sett í samhengi við samtímaumræðu hérlendis og erlendis til að varpa ljósi á ólík sjónarmið og viðmið sem tengjast hugtakinu.

Að loknu fræðsluerindi Eyrúnar tóku við lærdómsríkar málstofur og námskeið: Hluti starfsfólks mætti á gagnræðunámskeið Samtakanna ´78 þar sem áhersla var á að styrkja þátttakendur í að bregðast við útilokandi orðræðu, ósannindum og hatursorðræðu. Þar var lögð áhersla á að gagnræða sneri að því leiðrétta rangfærslur og setja fram önnur sjónarmið sem forvörn gegn ofbeldi og útskúfun. Náms- og starfsráðgjafi var með málstofu um bekkjaranda, hópa og samskipti og hvað kennarar geta gert til að efla jákvæða samvinnu og samskiptamenningu innan bekkja. Stærðfræðikennari var með fræðslu um fjármál þar sem áhersla var lögð á húsnæðislán og endurfjármögnum, enskukennari sagði frá reynslu sinni af prófakerfinu Duggu og áfangastjóri var með málstofu um stuðning við nýliða í starfi og starfstengda leiðsögn á fyrsta kennsluári sínu í framhaldsskóla.