Hátíðleg útskrift

Dúxar Kvennaskólans vorið 2022. Alfa Magdalena Birnir Jórunnardóttir og Guðbjörg Alma Sigurðardóttir…
Dúxar Kvennaskólans vorið 2022. Alfa Magdalena Birnir Jórunnardóttir og Guðbjörg Alma Sigurðardóttir.

 

Í dag var haldin fjölmennasta útskrift Kvennaskólans hingað til, þegar alls 199 nemendur voru brautskráðir frá skólanum. Athöfnin fór fram í Háskólabíó og var í senn hátíðleg og skemmtileg. Skólameistari skólans, Hjalti Jón Sveinsson, stýrði athöfninni í síðasta sinn sem skólameistari því bæði hann og Oddný Hafberg fyrrum aðstoðarskólameistari fengu kveðjugjafir frá skólanum í dag og miklar þakkir fyrir gott starf í þágu skólans.

Sigrún Steingrímsdóttir flutti kveðjuræðu til nýstúdenta frá starfsfólki skólans. Fráfarandi forseti nemendafélagsins, Hekla Dís Kristinsdóttir, flutti ávarp nýstúdents og Elva Björt Pálsdóttir flutti ávarp fyrir hönd 40 ára afmælisárgangs stúdenta.

Kór skólans tók tvö lög undir stjórn Lilju Daggar Gunnarsdóttur. Nýstúdentinn Ísak Thomas Birgisson söng einsöng með kórnum. Þá voru tvö tónlistaratriði í boði nýstúdenta því María Qing Sigríðardóttir lék á selló og Guðrún Lilja Pálsdóttir lék á þverflautu. Síðast en ekki síst sá Reynir Jónasson um harmonikkuleik í athöfninni að beiðni stúdentanna sjálfa.

Verðlaun fyrir hæstu meðaleinkunn og bestan heildarárangur á stúdentsprófi koma úr Minningarsjóði frú Þóru Melsteð, stofnanda Kvennaskólans í Reykjavík. Að þessu sinni urðu tveir nemendur dúxar skólans. Alfa Magdalena Birnir Jórunnardóttir og Guðbjörg Alma Sigurðardóttir voru báðar með hvorki meira né minna en 9,93 í meðaleinkunn. Verðlaunin eru sérhönnuð silfurbókamerki sem Eva Súsanna Munoz gullsmiður hannaði og smíðaði en Eva var stúdent frá Kvennaskólanum vorið 2008. 

Guðrún Lilja Pálsdóttir hlaut Stúdentspennann sem eru verðlaun fyrir besta lokaverkefni skólaársins en auk hennar fékk Alfa Magdalena Birnir Jórunnardóttir sérstaka viðurkenningu fyrir framúrskarandi lokaverkefni.

Verðlaun Háskólans í Reykjavík fyrir framúrskarandi árangur í raungreinum á stúdentsprófi hlaut Guðrún Lilja Pálsdóttir.

Þá hlaut Hekla Dís Kristinsdóttir Menntaverðlaun Háskóla Íslands sem veitt eru þeim nemanda sem sýnt hefur framúrskarandi árangur á stúdentsprófi auk þess að hafa náð eftirtektarverðum árangri á sviði lista eða íþrótta, átt mikilvægt framlag til skólafélaga eða skólans.

Aðrar viðurkenningar fyrir afburðagóðan námsárangur fengu: Aldís Ylfa Garðarsdóttir, Tinna Sól Þórsdóttir, Boyd Clive Aynscomb Stephen, Alfa Magdalena Birnir Jórunnardóttir, Sandra Dögg Ólafsdóttir, Nína Steingerður Káradóttir, Anna Huyen Ngo, Guðbjörg Alma Sigurðardóttir, Ingibjörg Ragna Pálmadóttir, Ásdís Guðmundsdóttir og Guðrún Lilja Pálsdóttir,

Viðurkenningu fyrir þátttöku í stjórn Nemendafélagsins Keðjunnar fengu Hekla Dís Kristinsdóttir, Sindri Thor Sindrason, Kristín Þorsteinsdóttir, Aron Nói Ewansson Callan, Kormákur Ólafsson, Patricia Dúa Thompson Landmark og Maríanna Katrín Bjarkadóttir.

Ljósmyndir frá athöfninni má finna hér

Við óskum öllum nýstúdentunum og aðstandendum þeirra innilega til hamingju með áfangann.