Góð ferð á Njáluslóðir

 

Miðvikudaginn 30. apríl fóru fimm bekkir á öðru ári í ferðalag um Suðurland til að kynna sér sögusvið Brennu-Njálssögu sem þau lásu í vetur. Íslenskukennararnir sem skipulögðu ferðina og sáu um leiðsögn eru Eva Kamban Ragnarsdóttir, Helgi Jónsson, Sigrún Steingrímsdóttir og Sverrir Árnason.

Fyrst var farið að Keldum, elsta torfbæ á Íslandi. Þar er bær byggður á stofni bæjar sem stóð á tímum Njálu. Síðan var gengið upp að Gunnarsteini þar sem hópurinn sviðsetti bardaga að víkingasið með tilheyrandi leikmunum úr skólanum.

Í hádeginu var hamborgaraveisla í Sögusetrinu á Hvolsvelli og þegar allir voru orðnir saddir og sælir var hlíðin fagra að Hlíðarenda heimsótt, sem er líklega ein frægasta hlíð landsins og mikill örlagavaldur hjá söguhetju bókarinnar.

Síðasta stopp var síðan við Gluggafoss þar sem nemendur fengu góðan göngutúr fyrir heimferðina. Mikil gleði ríkti í hópnum og ekki spillti fyrir að síðasta ball vetrarins beið þeirra um kvöldið.