Fyrst kvenna á Alþingi

Höggmynd af Ingibjörgu H. Bjarnason eftir Ragnhildi Stefánsdóttur. Styttan var vígð á 100 ára afmæli…
Höggmynd af Ingibjörgu H. Bjarnason eftir Ragnhildi Stefánsdóttur. Styttan var vígð á 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna á Alþingi.



Við minnumst þess í dag að hundrað ár eru liðin frá því Ingibjörg H. Bjarnason (1868-1941) tók sæti á Alþingi fyrst íslenskra kvenna.

Í Kvennaskólanum halda nemendur og starfsfólk upp á daginn með köku og fróðleiksmolum um Ingibjörgu. Eins tekur kór Kvennaskólans þátt í sérstakri hátíðardagskrá sem Alþingi stendur fyrir í tilefni dagsins. Ingibjörg var brautryðjandi á mörgum sviðum eins og margar heimildir vitna um en hér langar okkur að staldra sérstaklega við þann part sem snýr að Kvennaskólanum í Reykjavík.

Saga Ingibjargar er samofin sögu Kvennaskólans. Hún stundaði nám við skólann veturinn 1881-1882. Ellefu árum síðar gerist hún kennari við bæði Kvennaskólann og Barnaskólann sem flutti einmitt á Fríkirkjuveg 1 á þeim tíma sem hún kenndi við hann (og það húsnæði er nú partur af Kvennaskólanum) og verður loks skólastýra Kvennaskólans árið 1906 og gegnir því starfi til æviloka.

Ingibjörg lauk leikfimikennaraprófi í Danmörku fyrst Íslendinga. Hún kynnti sér nýjungar í menntamálum með ferðalögum til landa sem þóttu skara fram úr í málaflokknum. Hún hafði forgöngu um ýmis önnur velferðarmál, svo sem varðandi heilbrigði þjóðarinnar og félagsleg úrræði í samfélaginu. Hún var til að mynda formaður Landspítalasjóðs allt frá stofnun sjóðsins árið 1915 til dauðadags.

Þau 35 ár sem Ingibjörg stýrði Kvennaskólanum voru mikil mótunarár í sögu skólans. Hennar fyrsta verk var einmitt að finna nýtt skólahúsnæði þar sem aðsókn í skólann var mikil og engin leið að fjölga nemendum við þáverandi aðstæður. Það var ekki auðvelt verk en til að gera langa sögu stutta varð niðurstaðan sú að skólinn fékk til leigu (og eignar seinna meir) nýtt hús að Fríkirkjuvegi 9. Húsið þykir merkilegt í byggingarsögu Reykjavíkur því það er eitt af fyrstu steinsteyptu húsum bæjarins þó gólfin væru reyndar úr timbri. Ingibjörg fékk til afnota íbúð í skólahúsnæðinu þar sem nú eru skrifstofur skólans og skólameistara. Fundir Landspítalasjóðs voru einmitt ætíð haldnir þar, meira að segja mörgum áratugum eftir andlát Ingibjargar.

Þegar Ingibjörg tekur sæti á Alþingi heldur hún starfi sínu áfram sem skólastýra en kennir færri námsgreinar. Þegar þingmennsku lýkur fjölgar hún þó aftur námsgreinunum og kennir alltaf einhverjar námsgreinar samhliða starfi sínu sem skólastýra, raunar allt þar til hún deyr 73 ára gömul. Hún hafði þó glímt við heilsuleysi síðustu árin og meðal annars leitað sér lækninga erlendis.

Ingibjörg arfleiddi skólann að flestum eigum sínum. Til dæmis prýða nokkur húsgögn frá henni skrifstofur skólans enn þann dag í dag og eins arfleiddi hún skólann að fjármunum sem skyldu notaðir til að styrkja bæði nemendur og kennara skólans.

Minnisvarði um þessa merku konu stendur fyrir framan skála Alþingis. Styttan fangar vel þær lýsingar sem hafðar voru um Ingibjörgu, konu sem gustaði um en bjó á sama tíma yfir fágun og glæsileika. Hún gekk á undan með góðu fordæmi, sýndi alúð og óhemju dugnað en var líka ströng og einörð. Þar að baki bjó þó jafnan mikil umhyggja og vitnuðu margir nemendur og samferðafólk um það. Hennar var minnst með mikilli hlýju og væntumþykju þegar hún lést í Reykjavík árið 1941.

Minningin um mæta konu lifir, bæði innan veggja Kvennaskólans og meðal íslensku þjóðarinnar. 

Smelltu á ljósmyndirnar hér að neðan fyrir stækkun og myndatexta. 

Heimildir:
Björg Einarsdóttir. (1986). Úr ævi og starfi íslenskra kvenna II. Reykjavík: Bókrún.
Kristín Ástgeirsdóttir. Erindi frá hátíðarsamkomu árið 2012 þegar 90 ár voru liðin frá því Ingibjörg H. Bjarnason varð fyrsta konan sem kosin var til setu á Alþingi: https://www.althingi.is/pdf/Kristin_IHB.pdf
Sigríður Briem Thorsteinsson. (1974). Kvennaskólinn í Reykjavík 1874–1974. Í Aðalsteinn Eiríksson, Björg Einarsdóttir, Guðrún P. Helgadóttir, Halldóra Einarsdóttir, Margrét Helgadóttir (ritstj.), Ingibjörg H. Bjarnason (bls. 207-224). Reykjavík: Almenna bókafélagið.