Frönsk tunga og skynfærin

 

Í nokkur ár hefur franska sendiráðið á Íslandi í samstarfi við Alliance française í Reykjavík (AF) staðið fyrir hátíðinni KEIMUR í nóvember, á frönsku kölluð "La semaine du goût". Þá er frönsk matargerðarlist í hávegum höfð og ýmsir atburðir á dagskrá. Í tengslum við þessa hátíð fengu nokkrir frönskuhópar í Kvennaskólanum góða gesti síðla í nóvember.

Fjórir fulltrúar frá sendiráðinu og AF komu og þjálfuðu bragð-, snerti- og þefskyn nemenda og ekki síst franska tungu. Nemendur lærðu fjölmörg orð og setningar sem tengjast mat, bundu fyrir eða lokuðu augunum og ýmist snertu, lyktuðu eða smökkuðu á ólíkum matvælum um leið og þau giskuðu á um hvað var að ræða.

Þetta vakti mikla kátínu nemenda sem hrukku mörg hver við þegar þau dýfðu fingrunum blindandi í stappaðan banana, brögðuðu engifer eða lyktuðu af harðfiski. Nemendur voru upp til hópa dugleg að giska og spreyta sig á frösum eins og "Ça sent bon!" (þetta ilmar vel), "C'est très fort !" (þetta er mjög sterkt!) og "C'est sucré" (þetta er sætt).

Er gestunum þakkað kærlega fyrir komuna og þessar fjörugu og fróðlegu kennslustundir.