Frábær ferð til Berlínar

 

Aðfaranótt miðvikudagsins 11. október hélt 28 manna hópur þýskunemenda í áfanganum ÞÝSK2BE05 ásamt kennara áfangans Björgu Helgu Sigurðardóttur og samstarfskonu hennar, Ástu Emilsdóttur, til Berlínar í náms- og menningarferð. Nemendur höfðu fyrir ferðina lært um sögu og menningu borgarinnar og unnið kynningar um hverfi hennar og þekktustu staði. Hópurinn gisti rétt við Alexanderplatz, í hjarta gömlu Austur-Berlínar. Farið var í bæði göngu- og rútuferð með íslenskum leiðsögumanni sem býr í Berlín auk þess sem kennarar fóru með nemendur í styttri ferðir. Í þessum ferðum voru skoðaðir margir merkir staðir. Má þar nefna Brandenborgarhliðið, Ólympíuleikvanginn, dómkirkjuna, Holocaust- minnismerkið, East Side Gallery og Treptower-garðinn. Auk þess var hin sögufræga bygging Reichstag (þinghúsið) heimsótt og Gedenkstätte Berliner Mauer sem er minningarstaður um Berlínarmúrinn. Einnig heimsóttu nemendur einn merkan stað að eigin vali og fóru margir í sjónvarpsturninn og fengu þannig frábært útsýni yfir borgina, aðrir fóru í dýragarðinn og/eða á ýmis söfn. Margir notuðu tækifærið og versluðu á Ku‘damm, frægustu verslunargötunni í vesturhluta Berlínar. Komið var heim síðdegis sunnudaginn 15. október eftir mjög vel heppnaða ferð. Framkoma nemenda í ferðinni var til fyrirmyndar og voru þeir skólanum til sóma.