Fjórir Kvenskælingar hljóta styrki frá Háskóla Íslands

 

í gær tóku fjórir stúdentar úr Kvennaskólanum við styrkjum úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands. Styrkir eru veittir nýnemum við Háskóla Íslands sem náð hafa framúrskarandi árangri í námi til stúdentsprófs og jafnframt látið til sín taka á öðrum sviðum, svo sem í félagsstörfum í framhaldsskóla eða listum og/eða íþróttum.

Styrkþegar úr Kvennó að þessu sinni eru þau Guðbjörg Alma Sigurðardóttir, Hannes Hermann Mahong Magnússon, Rut Rebekka Hjartardóttir og Sigurður Ari Stefánsson

  • Guðbjörg Alma Sigurðardóttir lauk stúdentsprófi frá Kvennaskólanum í Reykjavík í fyrra og var annar af dúxum skólans. Hún tók þátt í kór Kvennaskólans, bæði sem söngkona og stjórnarmaður. Hún tók sér hlé frá námi síðastliðinn vetur og dvaldi hluta hans í lýðháskóla á Jótlandi. Félagsvísindi heilluðu Guðbjörgu Ölmu snemma í framhaldsskóla og því hefur hún hafið nám í félagsfræði.
  • Hannes Hermann Mahong Magnússon lauk stúdentsprófi frá Kvennaskólann í Reykjavík í vor. Í Kvennó lét hann töluvert að sér kveða í félagslífinu. Hann hefur enn fremur verið í landsliði Íslands í karate undanfarin fimm ár og æft og keppt erlendis. Hann státar enn fremur af tveimur Íslandsmeistaratitlum í greininni. Hannes Hermann hefur innritað sig í kínversk fræði, með áherslu á viðskipti.
  • Rut Rebekka Hjartardóttir var dúx Kvennaskólans í Reykjavík í vor en hún útskrifaðist með hæstu meðaleinkunn sem gefin hefur verið í skólanum. Hún hefur stundað dansnám frá fjögurra ára aldri og útskrifaðist einnig í vor af listdansbraut Danslistaskóla JSB. Rut Rebekka hefur tekið þátt í fjölmörgum verkefnum á sviði sviðslista, m.a. í Borgarleikhúsinu og á vegum RÚV, keppt í dansi víða um heim og samið dansa og kennt. Rut Rebekka hefur hafið nám í lífeindafræði.
  • Sigurður Ari Stefánsson brautskráðist frá Kvennaskólanum í Reykjavík í vor. Hann er afreksmaður í fimleikum og hefur verið valinn til að taka þátt fyrir Íslands hönd í ýmsum verkefnum, eins og Evrópu- og Norðurlandamótum unglinga. Hann varð Íslandsmeistari unglinga í áhaldafimleikum karla í fyrra en hefur nú færst upp í fullorðinsflokk þar sem hann berst um landsliðssæti í greininni. Sigurður Ari hefur innritast í tölvunarfræði.


Við sendum þessu frábæra fólki okkar innilegustu heillaóskir. Við söknum þeirra héðan úr Kvennó en þykjumst vita að þau muni láta til sín taka á nýjum og spennandi vettvangi. Þeim eru allir vegir færir! 

Nánari upplýsingar um verðlaunin og verðlaunahafana eru á vef Háskóla Íslands, https://www.hi.is/frettir/a_fjorda_tug_afreksnema_faer_styrk_til_nams_i_haskola_islands