Erlent samstarf í valáfanga

 

Kvennaskólinn er þátttakandi í spennandi alþjóðlegu verkefni þar sem skólar í fimm löndum; Þýskalandi, Englandi, Póllandi, Eistlandi og Íslandi, vinna saman að loftlagsmálum. Verkefnið heitir Mobility in the age of #StayHome - Where are we going? og er styrkt af Erasmus-áætluninni.

Kennarar í Kvennaskólanum hafa komið að undirbúningi og framkvæmd verkefnisins sem hófst formlega haustið 2020 og stendur til ársins 2023. Markmiðið með verkefninu er að nemendur kynni sér samgöngur í sínu landi og skoði nýjar leiðir til að draga úr losun úrgangsefna sem hafa neikvæð áhrif á loftslagið. 

Hér í Kvennó eru nítján nemendur af öllum námsbrautum skráðir í valáfangann. Telma Dís Sigurðardóttir er verkefnastjóri yfir verkefninu. Ásamt henni hafa Halldóra Jóhannesdóttir og Ásdís Ingólfsdóttir sem komið að verkefninu. Þá hefur Auður Þóra Björgúlfsdóttir, verkefnastjóri erlendra samskipta, einnig aðstoðað við undirbúning og framkvæmd.

Í síðustu viku sóttu Telma og Ásdís vinnufund samstarfsaðila sem haldinn var í Þýskalandi en að þessu sinni tóku nemendur þátt í gegnum zoom-fjarfundabúnaðinn. Þeir hlýddu á fyrirlestra sérfræðinga og kynningar nemendanna frá hinum löndunum sem m.a. höfðu farið á sýningu um framtíðarsamgöngumáta. Nemendur hér tóku virkan þátt með því að spyrja spurninga og senda efni rafrænt milli landa, teiknuðu lógó fyrir verkefnið og gerðu bækling um samgöngumál á Íslandi. Hér má sjá nokkrar myndir frá vinnufundunum.