Erasmus+ heimsókn til Eistlands

 

Frá því fyrir covid hafa rúmlega tuttugu nemendur úr Kvennó tekið þátt í Erasmus+ verkefni um samgöngur og framtíðarstefnu í samgöngumálum. Verkefninu er stýrt af þýskum skóla og auk hans og Kvennó taka þátt skólar frá Eistlandi og Póllandi.

Síðustu viku fyrir páskafrí, 25. mars til 1. apríl, lögðu átta nemendur úr Kvennó land undir fót og heimsóttu skóla í landmærabænum Narva í Eistlandi. Sá bær er til fyrirmyndar hvað varðar almenningssamgöngur sem eru fríar. Tveir kennarar fylgdu hópnum, þær Ásdís Ingólfsdóttir og Halldóra Jóhannesdóttir.  

Nemendur tóku þátt í fjölbreyttum verkefnum og heimsóknum ásamt nemendum hinna landanna. Meðal annars var farið í Narva kastala þar sem rússneski bærinn Ivanogorod blasti við handan árinnar Narva. Gerð voru stutt myndbönd og glærukynningar um aðalviðfangsefnið verkefnisins; samgöngur framtíðar. Nemendur kynntust saunu-menningu Eistlands og síðasta daginn var farið til Tallinn. Þar var farið á tæknisafnið Proto og í Tækniháskólanum TalTec var fyrirlestur um dróna en notkun þeirra verður stöðugt fjölbreyttari.

Það var ánægjulegt að ljúka loksins þessu Erasmus+ samstarfsverkefni sem covid setti mark sitt á.